Lítil arðsemi og lágt menntunarstig í auðugu landi

Verkalýðsmál 10. nóv 2022

Aðsókn ungs fólks í háskólanám er mun minni á Íslandi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við og hér borgar sig síður að afla sér háskólamenntunar. Verulega hallar á kvenkyns sérfræðinga á íslenskum vinnumarkaði. 

Þetta kemur fram í skýrslu um virði menntunar í íslenskum og alþjóðlegum samanburði sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir BHM.

Hærra hlutfall kvenna þýðir lægra tímakaup

Meðaltímakaup fullvinnandi sérfræðinga var á bilinu 3.900–6.000 krónur á árinu 2021, en mismunandi eftir mörkuðum. Þeim mun hærra sem hlutfall kvenna er í sérfræðistörfum því lægra er tímakaupið. Tímakaup sérfræðinga á almennum markaði er t.a.m. um 50% hærra að meðaltali en tímakaup sérfræðinga hjá sveitarfélögunum. Rúmlega 80% sérfræðinga hjá sveitarfélögunum eru konur.

Tekjur mjög mismunandi eftir æviskeiði og þúsaldarkynslóð í kreppu

Háskólamenntaðir karlar á aldrinum 45–64 ára eru með um 40% hærri meðalatvinnutekjur en kvenkyns sérfræðingar á sama aldri. Það gæti meðal annars skýrst af greiðara aðgengi karla en kvenna að stjórnunarstöðum og örari framgangi þeirra innan fyrirtækja á því aldursskeiði. Háskólamenntaðir ungir karlar, á aldrinum 25-34 ára, koma betur út en háskólamenntaðar konur óháð námsgráðu en atvinnutekjur þeirra eru að meðaltali um 20% hærri fyrir BSc og MSc gráðu.

Ef leiðrétt er fyrir áhrifum hjúskaparstöðu, fjölda barna, hagsveiflu og hagvaxtar til lengri tíma á atvinnutekjur kemur í ljós að háskólamenntað ungt fólk af þúsaldarkynslóðinni svökölluðu hefur að meðaltali um 18 prósentustigum lægri tekjur en allar þær kynslóðir háskólamenntaðra sem á undan komu, á sama aldri.

Ávinningur kvenna af háskólanámi neikvæður til aldamóta

Ávinningur fólks af háskólanámi, mældur í mun á atvinnutekjum háskólamenntaðra og framhaldsskólamenntaðra eftir skatt, hefur sveiflast mikið á síðustu áratugum. Nýjustu tölur benda til þess að ávinningur háskólamenntaðra á aldrinum 25-64 ára sé nú um 34%, eða svipaður og árið 1997. Atvinnutekjur háskólamenntaðra karla eru nú rúmlega 55% hærri en meðalatvinnutekjur framhaldsskólamenntaðra en sambærileg tala hjá konum er 19%. Vert er að benda á að ávinningur kvenna af háskólamenntun var neikvæður allt til aldamóta.

Arsemi mun minni að meðaltali og mismunandi eftir atvinnugreinum

Ef kostnaður (fórn í tekjum og bein útgjöld) er veginn upp á móti ávinningi af háskólanámi kemur í ljós að arðsemi háskólamenntunar er mun minni á Íslandi en í öðrum löndum og að meðaltali innan OECD, eða sem nemur 11% raunvöxtum árlega, samanborið við 17% að meðaltali innan OECD. Í tölunum er gert ráð fyrir fjögurra ára námi (meðaltal BSc- og MSc gráðu). Tapaðar atvinnutekjur miðast við meðaltal, ekki tekjur fullvinnandi, svo líklegra er að arðsemi sé ofmetin en vanmetin.

Lítil arðsemi gæti orðið samfélaginu dýrkeypt

Aðsókn ungs fólks í háskólanám er mun minni hér en í öðrum löndum. Aðeins 38% fólks á aldrinum 25–34 ára hefur aflað sér háskólamenntunar á Íslandi, samanborið við 51% í Noregi og 49% í Svíþjóð, svo dæmi séu tekin. Hlutfallið er talsvert lægra en í öðrum norrænum ríkjum og mun lægra en í ýmsum smáríkjum. Kynjamunurinn er sá þriðji mesti innan OECD og um tvöfalt meiri en á hinum Norðurlöndunum, körlum í óhag. Ísland er þá númer 21 af 30 OECD-ríkjum hvað varðar hlutfallslegan fjölda karla og kvenna sem hafa lokið meistaraprófi í háskóla. Þetta gæti meðal annars skýrst af lítilli arðsemi háskólanáms á Íslandi.

Arðsemin er mjög mismunandi eftir atvinnugreinum. Til dæmis má nefna að þau sem útskrifuðust árið 2015 og hófu störf í fjármálastarfsemi hafa áunnið sé þrisvar sinnum meiri ávinning á fimm árum en þau sem hófu störf í heilbrigðisþjónustu á þeim tíma.

Grein eftir Vilhjálm Hilmarsson hagfræðing BHM og Þórhildi Þorkelsdóttur kynningarstjóra á vef BHM.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí