Rauða blokkin hélt meirihluta á síðasta talda atkvæðinu

Rauða blokkin í Danmörku náði meirihluta á síðasta talda atkvæðinu. Við síðustu tölur frá Kaupmannahöfn bættu Sósíaldemókratar við sig manni. Og með tveimur þingmönnum frá Grænlandi og einum frá Færeyjum er Mette Frederiksen með 90 þingmenn á bak við sig, naumasta meirihluta.

Allt stefndi í að Lars Løkke Rasmussen og nýr flokkur hans, Moderaterne, yrði í lykilstöðu eftir kosningarnar og gæti annað stýrt því hvort hægri stjórn yrði mynduð eða stjórn yfir miðjuna, eins og hann vildi helst. En þegar síðustu tölur frá Kaupmannahöfn duttu í hús varð ljóst að það er Mette Frederiksen sem getur myndað ríkisstjórn með stuðningi rauðu blokkarinnar.

Sú ríkisstjórn mun hanga á mörgum bláþráðum. Útkoma Rauðu blokkarinnar varð svona (innan sviga breytingar frá kosningunum 2019):

Sósíaldemókratarnir: 50 þingmenn (+2)
Sósíalíski þjóðarflokkurinn: 15 þingmenn (+1)
Enhedslisten: 9 þingmenn (-4)
Radikale Venstre: 7 þingmenn (-9)
Alternativet: 6 þingmenn (+1)
Rauða blokkin: 87 þingmenn (-9)

Við þetta bætist síðan þingmenn frá Javnaðarflokkurin í Færeyjum og Siumut á Grænlandi, systurflokkum Sósíaldemókrata, og einn frá Inuit Ataqatigiit á Grænlandi, systurflokki Enhedslisten.

Með svona nauman meirihluta hafa allir þingmenn mikið vægi, þingmennirnir frá eyjunum, en líka þingmenn Radikale Venstre, sem er flokkur í sárum eftir mikið fylgistap og flokkurinn sem knúði á um kosningar nú vegna óánægju með fyrri ríkisstjórn.

Sósíaldemókratar eru sigurvegarar fyrir að halda meirihluta rauðu blokkarinnar og fyrir að bæta við sig, fá nú bestu kosningu síðan 2001. Sósíalíski þjóðarflokkurinn má vel við una en Enhedslisten tapar eftir að hafa unnið mikið á í síðustu sveitarstjórnarkosningum, hefur ekki fengið minni fylgi síðan fyrir efnahagshrunið.

En hægra megin er breytingin meiri. Þar eru helstu tapararnir og sigurvegararnir í fylgisbreytingum talið:

Venstre: 24 þingmenn (-19)
Moderaterne: 16 þingmenn (+16)
Danmerkurdemókratarnir: 14 þingmenn (+14)
Liberal Alliance: 14 þingmenn (+10)
Íhaldsflokkurinn: 10 þingmenn (-2
Nye Borgerlige: 6 þingmenn (+2)
Danski Þjóðarflokkurinn: 4 þingmenn (-12)
Kristilegir demókratar: 0 þingmenn (+/-0)
Hægrið með Moderaterne: 88 þingmenn (+9)

Við þetta bætist svo einn þingmaður frá Sambandsflokkurin, sem er systurflokkur Venstre.

Venstre missir flesta þingmenn til tveggja nýrra flokka sem fyrrum framáfólk í flokknum stofnaði: Moderaterne Lars Løkke og Danmerkurdemókrata Inger Støjberg, sem bæði geta talist miklir sigurvegarar þessara kosninga. Og frjálslyndir í Liberal Alliance bæta líka mikið við sig.

Danski þjóðarflokkurinn rétt hangir inn á þingi og er nú vart svipur frá sjón. Kjósendur hans hafa líklega farið að mestu á Danmerkurdemókratana en að einhverju leyti til Nye Borgerliga, sem er enn utar á hægri jaðrinum.

Danski þjóðarflokkurinn fær 4 þingmenn fyrir 2,6% atkvæða en þröskuldurinn í Danmörku er 2%, ekki heil 5% eins og á Íslandi. Fjórir flokkar í Danmörku fara á þing með minna fylgi en Sósíalistar á Íslandi fengu í síðustu kosningum: Radikale Venstre, Nye Borgerlige, Alternativet og Danski Þjóðarflokkurinn.

Þessir flokkar unnu mest á:
Moderaterne: +9,3 prósentur
Danmerkurdemókratarnir: +8,1 prósentur
Liberal Alliance: +5,6 prósentur

Þessir bættu aðeins við sig:
Sósíaldemókratarnir: +1,6 prósentur
Nye Borgerlige: +1,3 prósentur
Sósíalíski þjóðarflokkurinn: +0,6 prósentur
Alternativet: +0,3 prósentur

Þessir misstu nokkuð fylgi:
Íhaldsflokkurinn: -1,1 prósentur
Kristilegir demókratar: -1,2 prósentur
Enhedslisten: -1,7 prósentur

Þessir misstu mikið fylgi:
Radikale Venstre: -4,8 prósentur
Danski Þjóðarflokkurinn: -6,1 prósentur
Venstre: -10,1 prósentur

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí