Á undanförnum árum hefur auður samfélaga dreifst á hendur fárra. Skattheimta á auð er of lítil og oft á tíðum lægri en á launatekjur. Algengt er að efnafólk hafi svigrúm til að safna auði og hafa af honum fjármagnstekjur frekar en beinar launatekjur. Þetta útskýrir lága skattbyrði þeirra tekjuhæstu í vestrænum samfélögum. Til að snúa þessari þróun við er nauðsynlegt að líta á fjármagnstekjur og aðrar launatekjur sömu augum til að einstaklingar hafi ekki hag af tilfærslum úr launatekjum yfir í fjármagnstekjur. Þetta eru niðurstöður í nýrri skýrslu hagfræðinganna Thomas Piketty, Gabriel Zucman og Emmanuel Saez.
Að mati Piketty og félaga hans tímabært að leggja á stighækkandi erfða- og auðlegðarskatt. Ástæðan er sú að persónulegar tekjur stóreignafólks eru lítill hluti af efnahagslegu fótspori þeirra. Stórir eignarhlutar í samsteypum geta verið óseldir, óhreyfðir og gengið í erfðir án þess að nokkurn tímann komi til skattheimtu. Mikilvægt er að framlag þeirra auðugustu sé í takt við getu þeirra til að greiða í samsjóði, ekki bara það sem er greitt fyrir einkaneysluna.
Á eftirstríðsárum og fram að Thatcher/Raegan tímabilinu voru efstu skattþrep á tekjur hærri og stofn auðlegðarskatts umfangsmeiri í bæði Evrópu og Bandaríkjunum. Tillaga þeirra félaga er að samræma skattheimtu á þessum stóru efnahagssvæðum til að styrkja skattheimtu á stórfyrirtæki og þau allra ríkustu.
Zucman og Saez gáfu út bókina Triumph of Injustice þar sem varpað er ljósi á þróun skattbyrði síðustu ára. Þar er fjallað um þær krókaleiðir sem alþjóðafyrirtæki geta farið til að fela hagnað á lágskattasvæðum og stundað þannig stórfelld skattsvik. Mörg ríki hafa brugðist við þessu með því að halda skatti á hagnað lágum svo að færri fyrirtæki sjái sér hag í að fela hagnað og umsvif þessara svika minnki – einskonar uppgjöf gagnvart mætti stórfyrirtækjanna sem hafa virðiskeðjur, viðskipti og eignarhald þvert á skattumdæmi. Skýrslan sem hér er fjallað um nýtir sömu aðferðarfræði við mat á skattbyrði fólks, þar sem allar tegundir af skattbyrði eru sameinaðar fyrir hvern tekjuhóp fyrir sig.
Myndin er af mótmælum í Kaliforníu gegn skattatilllögum Repúblikana, sem miða að því að lækka skatta hinna ríku og skera niður opinbera þjónustu í kjölfarið.