VR hefur slitið kjaraviðræðum og lýst þær árangurslausar. Það er fyrsta skrefið í átt að verkföllum. Næst mun forysta félagsins óska eftir verkfallsheimild hjá félögum sínum. Ástæða viðræðuslitanna eru ummæli Bjarna Benediktssonar efnahagsmálaráðherra á fundi Viðskiptaráðs þar sem hann helti bensíni á eldinn á sama tíma og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var að reyna að slökkva hann á fundi í stjórnarráðinu.
Þessari stöðu var lýst í frétt Samstöðvarinnar í gær: Katrín reynir að slökkva elda – Bjarni mætir með bensín. Það er athygli vert að aðeins Samstöðin benti á þetta samhengi í gær, aðrir fjölmiðlar virtust ekki kveikja á að ummæli Bjarna voru innlegg í kjaraviðræður en ekki hugrenningar um verðbólgu.
Það virðist vera svo Bjarni telji að nú sé ekki tími til að semja heldur þvert á móti tækifæri til að sækja að verkalýðshreyfingunni og brjóta hana niður. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp til að veikja samtakamátt launafólks og Bjarni lýst ánægju sinni með það í ræðupúlti Alþingis. Staðan í samningaviðræðunum ræðst því ekki bara af því sem aðilar telja til skiptanna heldur hvað hvor telur hinn geta farið fram á. Bjarni vill mæta til viðræðna eins og þær séu úrslitaorrusta um völdin í samfélaginu, heitur af nýliðnum landsfundi.
Innan VR eru um 95% af félögum í Landsambandi íslenzkra Verzlunarmanna, svo ætla má að slit VR merki líka slit LÍV. Alla vega er erfitt að sjá framhald á viðræðum þess. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er jafnfram formaður LÍV.
Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins héldu fund í morgun og ákváðu að bíða með að slíta viðræðunum, skilja eftir opna gátt. Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar á þriðjudaginn. Þá kemur í ljóst hvert framhaldið veður. Staðan er sú að ef stjórnvöld koma ekki með sterkt útspil mun viðræðum líklega verða slitið.
Tilboð Samtaka atvinnulífsins hefur verið eingreiðsla undir 30 þús. kr. til að bæta eitthvað þá kaupmáttarrýrnun sem orðið hefur á þessu ári þrátt fyrir hækkun 1. maí vegna hagvaxtarauka lífskjarasamningsins. Reikna má með að lífskjarasamningarnir frá 2019 skili öðrum hagvaxtarauka 1. mai á næsta ári, líklega um eða rétt yfir 10 þús. kr. SA hefur síðan boðið innan við 5% hækkun á laun upp að um 600 þús. kr. sem myndi færa fólki á lægstu launum um 17 þús. kr. en fólki með rétt undir 600 þús. kr. um 27 þús. kr.
Í dag eru lágmarkslaun 368 þús. kr. Ef við miðum við taxtalaun sem gefa 370 þús. kr. á mánuði er SA að miða við eingreiðslu á innan við 30 þús. kr. og svo hækkun upp í 387 þús. kr. við undirritun og mögulega upp í 397 þús. kr. með hagvaxtarauka 1. maí.
Fólk með 600 þús. kr. gæti búist við hækkun upp í 627 þús. kr. við undirritun og um 637 þús. kr. eftir 1. maí.
Samkvæmt Vinnulöggjöfinni er verkalýðsfélögum aðeins heimilt að boða til verkfalla ef umræður undir verkstjórn ríkissáttasemjara hafa orðið árangurslausar. Fyrir 1996 var vald verkalýðsins meira, en þau voru skert þarna á vaxtarárum nýfrjálshyggjunnar. Það var trú Sjálfstæðisflokksins, sem Framsóknarflokkurinn féllst á og reyndar margir fleiri í samfélaginu, að verkalýðshreyfingin væri ekki afl sem byggt hefði upp allt það helsta í samfélaginu; svo sem veikindarétt, atvinnuleysisbætur, almannatryggingar, almenna skólagöngu, gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu, félagslegt húsnæði, sumarleyfi o.s.frv. Heldur væri verkalýðshreyfingin niðurbrjótandi afl sem yrði að stöðva. Hið góða afl í samfélaginu væri auðfólkið. Því yrði að veikja samtakamátt launafólks en auka völd auðsins.
Og Sjálfstæðisflokkurinn er enn þessarar skoðunar. Þingmenn hans hafa lagt fram frumvarp sem ætlað er að grafa undan mögulegum launafólks til að nota sameiginlegt afl sitt til að bæta kjör sín og réttindi og gera samfélagið skaplegra fyrir aðra en hin ríku og valdamiklu.
Það er í ljósa þessa sem hægt er að skilja atburði dagsins og gærdagsins. Katrín Jakobsdóttir boðaði fulltrúa launafólks og fyrirtækja á fund í gær og lýsti yfir vilja stjórnvalda til að styðja stuttan kjarasamnings sem rætt hafði verið um. Sá stuðningur þarf að fela í sér mikla húsnæðisuppbyggingu og aðgerðir til að hemja braskvæddan húsnæðismarkað, skattalækkanir til hinna tekjulægstu (sem getur ekki falið í sér annað en skattahækkanir á fjármagn og stórfyrirtækjaeigendur) og vaxtalækkanir.
Með þessi skilaboð úr forsætisráðuneytinu fóru samningsmenn aftur í Karphúsið. Þangað barst síðan ræða Bjarna Benediktssonar frá fundi Viðskiptaráðs, þar sem hann lýsti yfir stuðningi við vaxtahækkanir Seðlabankans og sagði verkalýðshreyfinguna vera vandamálið og helstu efnahagslegu ógnina.
Bjarni hafnar því grunnforsendum þeirra samninga sem Samtök atvinnulífsins og VR, LÍV og SGS voru að móta. Þar var gert ráð fyrir launahækkunum til að bæta almenna verðbólgu og vinna til baka það sem áunnist hafði í lífskjarasamningunum. Og síðan aðgerðum ríkisstjórnar og Seðlabanka til að mæta hækkun húsnæðiskostnaðar hjá almenningi og beitingu skattkerfisins til að draga úr þeim launahækkunum sem annars þyrfti til að bæta almenningi áföllin vegna verðbólgu og húsnæðisstefnu stjórnvalda. Þótt ekki hafi verið enn rætt um upphæðir og prósentur var þetta ramminn. En eftir yfirlýsingu Bjarna var um ekkert að ræða. Viðræðum er sjálfhætt.
Eins og Ragnar Þór benti á við Rauða borðið á miðvikudagskvöldið er næsta skref verkalýðsforystunnar að fara til sinna félagsmanna og kynna þeim ógnarhagnað fyrirtækja að undanförnu. Sýna fram á hversu mikið má sækja á fyrirtækin, bæði sem heild og einstaka fyrirtæki. Ný kröfugerð verður mótuð á grunni þessarar kynningar, þar sem ekki verður gert ráð fyrir stuðningsaðgerðum stjórnvalda. Þá verður farið fram á launahækkanir upp á 200 þúsund krónur og þar yfir.
Hér má sjá og heyra Ragnar Þór fara yfir stöðuna:
Á eftir launafólki á almennum vinnumarkaði koma opinberir starfsmenn, en samningar þeirra eru að renna út. Þar þarf Bjarni sjálfur að semja, sem fjármálaráðherra. Í hans tíð hefur samningatækni fjármálaráðuneytisins harðnað. Svo mjög að margar atvinnugreinar fá ekki fund við samninganefnd ríkisins. Og það besta sem kemur fyrir hinar opinberu stéttir er að kjaraviðræðurnar endi í gerðardómi, sem þó hlustar á kröfugerð launafólks og hefur einhvern skilning á basli launafólks við að lifa af á Íslandi.
Það er langt á milli launafólks og fyrirtækja. Og enn lengra á milli launafólks og fjármálaráðuneytisins. Og fram undan virðast vera harðar deilur, ekki aðeins um brauðið og rósirnar heldur ekki síst vegna hugmyndafræðilegrar baráttu sem Bjarni og Sjálfstæðisflokkurinn stendur í. Flokkurinn vill halda áfram byltingu hinna ríku sem kölluð er nýfrjálshyggja. Og stór liður í þeirri baráttu er að veikja afl launafólks. Bjarni metur að hin ríku séu nú í góðri stöðu, að nú sé tími fyrir tangarsókn.