Samkvæmt nýjustu könnunum er fylgið að fara frá ríkisstjórnarnarflokkunum tveimur, Fólkaflokknum og Sambandsflokknum, á meðan Miðflokkurinn heldur sínu, sem þó var ástæða stjórnarslitanna. Javnaðarflokkurinn og Tjóðveldi vinna á en möguegt er að Sjálvstýri falli af þingi.
Ríkisstjórnin sprakk út af hatursfullum ummælum Jenis av Rana um samkynhneigð. Jenis er formaður Miðflokksins sem er kristilegur íhaldsflokkur. Miðflokkurinn er með tvo þingmenn sem dugði Fólkaflokknum (8) og Sambandsflokknum (6) til að ná meirihluta á þingi. Það sitja 33 þingmenn á Þjóðþinginu í Færeyjum, kosnir af einum landslista.
Samkvæmt könnun sem birt var fyrir helgi er Fólkaflokkurinn að missa fylgi, er nú ekki stærsti flokkurinn heldur mælist minni en bæði Javnaðarflokkurinn og Tjóðveldi. Samanlagt fylgi þeirra tveggja myndi færa flokkunum 16 þingmenn, einum minna af þarf í meirihluta.
Til einföldunar mætti segja að þetta séu systurflokkar Samfylkingar og Vg. Framsókn, sem er kannski líkari Viðreisn en hinum íslenska Framsóknarflokki, heldur sér inn á þingi og nær líklega tveimur þingmönnum. Sá flokkur væri líklegur samstarfsflokkur mið-vinstriflokkanna, sem báðir vilja auka sjálfstæði Færeyja.
Og þótt Sjálvstýri mælist nú utan þings hefur sá flokkur bjargað sér oftar en einu sinni á lokametrunum. Ef Sjálvstýri nær á þing væri það á kostnað Fólkaflokksins. Það myndi enn auka líkur á vinstri stjórn í Færeyjum.
Kosið verður 8. desember í Færeyjum, eftir ellefu daga, svo enn er nokkuð eftir af kosningabaráttunni.
Myndin er frá sjónvarpskappræðum í Kringvarpinum í Færeyjum.