Í nýrri verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á jólabókum var Bónus oftast með lægsta verðið, í 50 tilvikum en Forlagið næst oftast, í 25 tilvikum. Penninn Eymundsson var oftast með hæsta verðið, í 43 tilvikum. Forlagið var með mesta úrvalið, 80 titla af 91 og Penninn Eymundsson með 79 titla. Mest var 88% eða 2.009 kr. munur á hæsta og lægsta verði á bókinni Mennirnir með bleika þríhyrninginn. Hæst var verðið í Pennanum Eymundsyni, 4.299 en lægst í Forlaginu, 2.290 kr.
Í Nettó voru engar verðmerkingar á bókum til staðar á sölustað og gat verðtökufulltrúi verðlagseftirlitsins því ekki tekið niður verð. Þetta samræmist ekki reglum Neytendastofu um verðmerkingar sem kveða á um að verðmerkja skuli vöru hvar sem hún er til sýnis og að auðvelt eigi að vera að sjá verð vöru og þjónustu á sölustað.
Neytendur ættu að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört í verslunum á þessum árstíma.
1.500-3000 kr. munur á hæsta og lægsta verði á bókatitlum í helmingi tilfella
Oft var mikill verðmunur á bókatitlum en í um helmingi tilfella eða 40 af 81 var yfir 1.500 kr. munur var á hæsta og lægsta verði á bókatitlum. Þannig var 1.500-2000 kr. munur á hæsta og lægsta verði á 23 bókatitlum en 2.000-2.500 kr. munur á 13 bókatitlum. Í fjórum tilvikum var yfir 2.500 kr. munur á hæsta og lægsta verði.
Bónus var oftast með lægsta verðið á bókatitlum, í 50 tilvikum en Forlagið næst oftast, í 25 tilvikum. Forlagið var með lægsta verðið á öllum þýddum skáldverkum en Bónus með lægsta verðið í öðrum flokkum ef bækurnar fengust í versluninni. Penninn Eymundsson var oftast með hæsta verðið, í 43 tilvikum, Salka í 16 tilvikum og Forlagið í 13 tilvikum.
Forlagið var með mesta úrvalið, 80 titla af 81 og Penninn með 79. Minnsta úrvalið var hjá Heimkaup en þar fengust 38 titlar af 81 en næst minnsta úrvalið var í Bónus þar sem 50 titlar fengust.
Lægsta verð:
Allt að 2.700 kr. munur á íslenskum skáldverkum
Af íslenskum skáldverkum var mest 60% eða 2.701 kr. munur á hæsta og lægsta verði á bókinni Hungur e. Stefán Mána. Hæst var verðið í Heimkaup, 7.199 kr. en lægst í Bónus, 4.498 kr. Þá var 49% munur á hæsta og lægsta verði af bókinni Opið haf e. Einar kárason, 45% á bókinni Drepsvart hraun e. Lilju Sigurðardóttur og 45% eða 2.392 kr. munur á bókinni Játning eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Almennt var minnstur verðmunur á þýddum skáldverkum eða á bilinu 17-21%.
Í krónum talið var mestur munur á hæsta og lægsta verði á bókinni Bjóluætt sem var ritstýrt af Sigurði Hermundarsyni, 4.109 kr. Hæst var verðið í Pennanum Eymundssyni 19.999 kr. en lægst í Forlaginu, 15.980 kr.
Hæsta verð:
56% verðmunur á vinsælum barna- og unglingabókum
Af íslenskum barna- og unglingabókum var mest 56% munur á hæsta og lægsta verði á þremur bókum. Í krónum talið var mestur munur á hæsta og lægsta verði á bókinni Fagurt galaði fuglinn sá, 2.501 kr. eða 56%. Þá var 56% eða 1801 kr. munur á hæsta og lægsta verði á bókinni Orri Óstöðvandi – Draumur Möggu Messi e. Bjarna Fritzson og jafn mikill munur var á bókinni Salka – Tímaflakkið eftir sama höfund. Í báðum tilvikum var verðið lægst í Bónus en hæst í Pennanum. Af þýddum barna- og unglingabókum var mest 61% munur á hæsta og lægsta verði á barnabókinni Hva eftir vinsæla barnabókahöfundinn David Walliams. Lægst var verðið Bónus, 3.098 kr. en hæst í Pennanum 4.999 kr.
Um verðkönnunina
Könnunin var gerð samtímis í eftirtöldum verslunum: Forlaginu , Nettó, Hagkaupum, Bónus, Heimkaup.is, Pennanum Eymundssyni og Sölku.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Frétt af vef Alþýðusambandsins.