Leikskólinn Bakki einkavæddur

Einkavæðing leikskólans Bakka í Grafarvogi var samþykkt á fundi borgarstjórnar í dag. Rökin fyrir því voru lítil aðsókn í leikskólann og að of mikið laust pláss væri til þess að leikskólinn teldist „rekstrarvæn eining“. Fjölda foreldra var á sama tíma synjað um pláss fyrir börn sín og jafnvel tjáð að hann væri fullur.

Tillagan var samþykkt með atkvæðum meirihlutans (Samfylking, Framsókn, Píratar og Viðreisn) og Sjálfstæðisflokksins. Í henni var lagt til að húsnæði leikskólans yrði tekið yfir af einkareknum leikskóla. Þannig yrði starfsemi leikskólans að Bakkastöðum lögð niður í núverandi mynd. Án rökstuðnings var því haldið fram að þannig yrði hægt að fylla leikskólann af börnum.

Réttlæting þessara aðgerða var sögð vera lítil aðsókn í leikskólann. Upplýsingar sem fengist hafa frá foreldrum segja aðra sögu. Þeir hafa sett sig í samband við borgarfulltrúa og tjáð að þeim hafi verið neitað um pláss fyrir börn sín á Bakka. Í sumar fengu börn t.a.m. ekki pláss þrátt fyrir að 35 laus pláss hafi verið til staðar.

Föður í Grafarvogi var t.d. tjáð að barnið hans kæmist ekki á leikskólann því allt væri fullt. Á þeim tíma voru eins og fyrr segir 35 laus pláss. Hann neyðist því til að keyra barnið á leikskóla á hinum enda bæjarins. Upplýsingarnar sem Skóla- og frístundasvið veitir vegna málsins og rök meirihlutans fyrir einkavæðingu passa ekki við frásagnir foreldra.

Vafi leikur því á að fullyrðingar borgaryfirvalda séu réttar vegna málsins. Einkavæðingin gæti hafa verið framkvæmd með villandi upplýsingar að leiðarljósi. Borgarfulltrúar Sósíalista og Vinstri grænna lögðu fram sameiginlegt álit á málinu þar sem fram kom að allt benti til þess að aðgerðir borgarinnar hafi rutt veginn fyrir einkavæðingu leikskólans.

Samþykktu tillöguna má sjá hér í heild: https://2021.reykjavik.is/sites/default/files/skjol_borgarstjornarfundur/9_tillaga_um_ad_leitad_verdi_leida_til_samstarfs_vid_sjalfstaett_starfandi_leikskola_i_reykjavik_thar_sem_nu_er_starfsstodin_bakki.pdf

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí