Meirihluti Eflingarfélaga með miklar fjárhagsáhyggjur

Velferð 13. des 2022

Tveir þriðju félagsfólks Eflingar með undir 500 þúsund krónur í mánaðarlaun er með miklar fjárhagsáhyggjur. Yfir þriðjungur allra Eflingarfélaga hafa þurft að leita sér aðstoðar vegna bágrar fjárhagsstöðu og fjórðungur gerði það hjá vinum eða ættingum. Margir eiga í erfiðleikum með afborganir lána.

Þetta kemur fram í kjarakönnun sem unnin var fyrir félagið af Gallup í haust og var hluti af undirbúningi vegna kröfugerðar fyrir nýjan kjarasamning.

Konur, leigjendur og erlendir félagsmenn í verstri stöðu

Um 58% allra Eflingarfélaga hafa mjög eða frekar miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni og fjölskyldunnar. Staðan er áberandi verri meðal kvenna en þar er hlutfallið 65% á móti 52% meðal karla. Vandinn er einnig meiri meðal leigjenda en þeirra sem búa í eigin húsnæði (65% á móti 53%) og meðal erlendra félagsmanna samanborið við íslenska (59% á móti 55%).

Á súluritinu má sjá yfirlit um svör við spurningu um áhyggjur af eigin fjárhagsstöðu, greint eftir helstu undirhópum (kyni, þjóðerni, húsnæðisstöðu og tekjuhópum).

Hlutfall félagsmanna Eflingar sem hafa mjög miklar eða frekar miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni og fjölskyldu sinnar. Heimild: Gallup, október 2022

Áhyggjur ekki bundnar við þá tekjulægstu

Þá er mjög sterkt samband við tekjur viðkomandi, en í lægsta tekjuhópnum (þeim sem eru með minna en 500 þúsund kr. á mánuði) höfðu 66% mjög eða frekar miklar áhyggjur. Hlutfallið er síðan lækkandi með hærri tekjum eins og sjá má á myndinni. Frekar fáir Eflingafélagar hafa meira en 700 þúsund krónur á mánuði og þá oftast með mikilli aukavinnu, en samt eru um 40% þeirra með mjög eða frekar miklar áhyggjur af fjárhag fjölskyldunnar.

Um 37% félagsmanna hafa leitað sér aðstoðar vegna fjárhagsstöðu sinnar á síðastliðnum 12 mánuðum, flestir hjá ættingjum eða vinum (26%) og hjá viðskiptabanka (14%).

Yfirdrættir, raðgreiðslur og smálán sliga félagsfólk

Um 28% félagsmanna eru með yfirdráttarlán og 23% eru með raðgreiðslulán hjá greiðslukortafyrirtækjum, sem krefjast hárra vaxtagreiðslna. Þá eru tæp 29% með bílalán og um 12% eru að greiða af smálánum frá smálánafyrirtækjum, sem rukka óheyrilega háa okurvexti.

Tæplega 30% Eflingarfólks hefur átt í erfiðleikum með að standa skil á afborgunum af lánum sínum á síðastliðnum 12 mánuðum. Þeir sem eru yngri og á lægri launum hafa almennt átt í meiri erfiðleikum með greiðslu afborgana af skuldum.

Yfirgnæfandi meirihluti vill hækka lægstu laun sérstaklega

Í könnuninni koma fram skýrar vísbendingar um erfiða fjárhagsstöðu Eflingarfélaga, en Stefán Ólafsson fjallaði um viðvarandi hallarekstur á heimilum láglaunafólks í 4. tölublaði Kjarafrétta Eflingar fyrr á árinu.

Þessi raunveruleiki rímar við þá niðurstöðu könnunarinnar að langflest Eflingarfólk (rúmlega 90%) vill leggja sérstaka áherslu á hækkun lægstu launa í kjarasamningum og frekari jöfnun tekna í samfélaginu.

Gallup framkvæmdi könnunina og var metþátttaka í henni, en 4.632 félagsmenn tóku þátt, sem er um fjórum sinnum fleiri en mest hefur áður náðst.

Frétt af vef Eflingar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí