Í næstu viku mun Mette Frederiksen leiðtogi Sósíaldemókrata í Danmörku slá gamalt met Anker Jørgensen forvera síns í lengd stjórnarmyndunarviðræðna. En þótt viðræður gangi hægt er talið ljóst hvert þær stefna, að ríkisstjórn Sósíaldemókrata og Venstre. Það er hins vegar óljóst hvaða aðrir flokkar muni styðja stjórnina, eða ganga inn í hana jafnvel.
Rauða blokkin náði eins manns meirihluta í kosningunum og því hefði kannski eðlilegasta útkoman verið áframhaldandi minnihlutastjórn Sósíaldemókrata með stuðningi flokkanna frá miðju til vinstri sem mynduðu þessa blokk með Sósíaldemókrötum. Gísli Tryggvason áhugamaður um dönsk stjórnmál sagði við Rauða borðið að Mette Frederiksen meti það svo að samningar við vinstrið, einkum Enhedslisten, komi í veg fyrir breytingar á eftirlaunakerfinu, færslu frá opinberu gegnumstreymiskerfi yfir í uppsöfnunarkerfi atvinnutekna í auknu mæli.
Sósíaldemókratar geta náð samkomulagi um þetta við hægrið. Líka um rýmkun útlendingalaga, en eins og önnur lönd í vestrinu þurfa Danir á innflytjendum að halda til að vinna verkin og til að bæta lýðfræðilega stöðu þjóðarinnar, sem eldist hratt.
Samkomulag um stefnu virðist vera að nást milli Sósíaldemókrata og Venstre. Saman hafa þessir flokkar 73 þingmenn, en 90 þingmenn þarf í meirihlutann. Moderaterne hafa 16 þingmenn og myndu vilja að styðja ríkisstjórnina gegn einhverjum áhrifum á stefnu hennar og embætti utan hennar. Jakob Ellemann-Jensen formaður Venstre á hins vegar erfitt með að una því að Lars Løkke Rasmussen formaður Moderaterne fái nokkur áhrif, en Lars Løkke er fyrrum formaður Venstre og flóttamaður þaðan, varð þess valdandi að Venstre missti fjölda þingmanna.
Ellemann-Jensen myndi helst vilja fá Íhaldsflokkinn inn í ríkisstjórnina, en hann er með 10 þingmenn. Það myndi kosta Sósíaldemókrata enn fleiri ráðherraembætti, nóg er samt að missa slík embætti yfir til Venstre. Auk þess myndi innkoma Íhaldsflokkinn inn í stjórnina færa hana enn lengra til hægri. Mette hefur þá sagt að allt eins mætti taka Sósíalíska þjóðarflokkinn inn með sína 15 þingmenn, jafnvel Radikale venstre með sína 7.
Það er því ljóst hver stefna nýrrar ríkisstjórnar verður, eitthvað sem kalla mætti hófsamar borgaralegar umbætur. En það á enn eftir að deila út stólum og sess, völdum og virðingu.
Gísli Tryggvason ræddi um stöðuna í Danmörku við Rauða borðið. Sjá má og heyra samtalið við hann hér:
Myndin er af Mette Frederiksen að heilsa Jakob Ellemann-Jensen. Lars Løkke Rasmussen fylgist sposkur með.