Sektir staðfestar vegna skattsvika eigenda Ölmu leigufélags

Landsréttur staðfesti í dag héraðsdóm sem aftur hafði staðfest úrskurð yfirskattanefndar sem aftur hafði staðfest úrskurð ríkisskattstjóra vegna sýndargjörnings fyrirtækja systkinanna í Langasjó, sem eru eigendur Ölmu leigufélags, með viðskipti með skuldabréf sem ætlað var að búa til falskt tap til að lækka skattgreiðslur fyrirtækis systkinanna.

Systkinin sættu sig ekki við úrskurð ríkisskattstjóra og kærðu til yfirskattanefndar. Höfðuðu svo mál fyrir héraðsdómi til að fá úrskurðinum breytt og áfrýjuðu síðan til Landsréttar þegar héraðsdómur staðfesti úrskurðinn. Þetta er því í fjórða skipti sem yfirvöld staðfesta skattsvik systkinanna. Með þessum viðskiptum með skuldabréfunum voru búin til afföll upp á 858 m.kr. afföll sem notuð voru til að lækka skattstofn fyrirtækja systkinanna með því augnamiði að greiða minni skatt til ríkissjóðs.

Lesa má dóminn hér: Langisjór gegn íslenska ríkinu.

Systkinin eru Guðný Edda, Eggert Árni, Halldór Páll og Gunnar Þór Gíslabörn. Þau hafa verið í fréttum undanfarna daga fyrir 30% hækkun á húsaleigu hjá Ölmu sem bitnar á fátæku fólki og leigjendum, en Alma skilaði 12,4 milljarða króna hagnaði í fyrra.

Brynja Hrönn Bjarnadóttir, 62 ára öryrki með ráðstöfunartekjur upp á 320 þús. kr. á mánuði, steig fram og sagði sína sögu. Systkinin, sem eru meðal allra auðugasta fólks á landinu, hækkuðu leiguna hjá Brynju úr 250 þús. kr. í 325 þús. kr., sem er langt umfram það sem hún ræður við. Þau höfðu þegar fengið frá Brynju meira en hún gat staðið undir, en vildu enn meira. Og sendu síðan frá sér tilkynningu þar sem þau sögðust nauðbeygð til að hækka leiguna, þótt öllum sé ljóst að leigan er miklum mun hærri en allur kostnaður þeirra við að leigja hana út.

Systkinin eiga Ölmu leigufélag og eru líka stærstu einkahluthafarnir í fasteignafélögunum Eik, Reitir og Reginn. Þau eiga heildverslunina Mata, kjúklingaframleiðslu Matfugls, svínarækt og kjötvinnsluna Síld og fisk, sem selur undir vörumerkinu Ali, Salathúsið og keyptu sælgætisgerðina Freyju í síðustu viku. Þá áttu þau alla vega pening.

Samstöðin hefur greint frá því að fyrirtæki í eigu systkinanna voru í Paradísarskjölunum, aflandsfyrirtæki á Möltu. Einnig að þau hafa verið sektuð ofar en einu sinni vegna brota á samkeppnislögum. Þau sóttu styrki í gegnum hlutabótaleiðina í cóvid, þótt ekkert af fyrirtækjum þeirra hafi orðið fyrir áfalli vegna farsóttarinnar. Og í dag kom í ljós að þau eru skattsvikarar ofan á allt annað.

Ráðherrar hafa sagt að 30% hækkun systkinanna sé óforsvaranleg en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur líka ítrekað að hann sé mótfallinn leiguþaki eða leigubremsu, það er takmörkunum á okri á leigumarkaði. Sjálfstæðisflokkurinn lofaði því að setja á leigubremsu ásamt öðrum ríkisstjórnarflokkum í tengslum við lífskjarasamningana 2019, en sveik það.

Aðrir ráðherrar hafa hneykslast á hækkuninni. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við Ríkisútvarpið að vert væri að skoða leiguþak, auk annarra aðgerða. Þó hefur komið fram að leiguþak sé ekki í aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga nú. Heldur ekki leigubremsa. Komið hefur fram að til standi að hækka húsnæðisbætur, sem í reynd er stuðningur við okrara svo þeir geti hækkað leigu enn meira. Og aukin hlutdeildarlán til svokallaðra óhagnaðardrifinna leigufélaga.

Myndin er af helstu vörumerkjum fyrirtækja systkinanna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí