„Núverandi tekjuskerðingar í almannatryggingakerfinu gera örorkulífeyrisþegum mjög erfitt að bæta fjárhagsstöðu sína, m.a. með atvinnutekjum. Þær halda fólki í fátækt og á jaðri samfélagsins. Fólk sem er jaðarsett hefur minni möguleika til samfélagsþátttöku og þar af leiðandi á lífi til jafns við aðra. Það að halda fólki í fátækt er pólitískt val,“ segir í umsögn Öryrkjabandalagsins um frumvarp um skerðingarlausa atvinnuþátttöku öryrkja.
Í frumvarpinu er lagt til að heimila örorkulífeyrisþegum að afla sér atvinnutekna í tvö ár án þess að þær skerði tilgreinda fjóra greiðsluflokka, sem samanlagt eru meginuppstaða lífeyrisgreiðslna frá TR til örorkulífeyrisþega. ÖBÍ fagnar þessu frumvarpi og telur að það sé jákvætt og mikilvægt skref í átt að því að fjarlægja ósanngjarnar tekjutengingar í almannatryggingakerfinu og gera fötluðu fólki kleift að njóta fjárhagslegs ávinnings af atvinnuþátttöku sinni. Því ber þó að halda til haga að lausnir á þeim vanda sem snýr að tekjuskerðingum vegna atvinnutekna öryrkja þurfa að vera almennar og ná til lengri tíma en 2ja ára í senn á 10 ára tímabili.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks felur m.a. í sér rétt fatlaðs fólks til að hafa tækifæri til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða vinnu sem er þegin á frjálsan hátt á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt.
„Ríkisstjórnin hefur nú lagt til að frítekjumark atvinnutekna fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka verði hækkað úr 109.600 kr. í 200.000 kr. á mánuði til samræmis við frítekjumark atvinnutekna ellilífeyristaka. Hérna er um að ræða jákvætt skref og mun gagnast þeim sem verða með atvinnutekjur yfir núverandi frítekjumarki (109.600 kr. á mánuði). Breytingin mun hafa þau áhrif að atvinnutekjur upp að 200.000 kr. á mánuði skerða ekki greiðsluflokka tekjutryggingar og heimilisuppbótar. Breytingin nær ekki til annarra greiðsluflokka. Atvinnutekjur, eins og allar aðrar skattskyldar tekjur, munu áfram skerða framfærsluuppbótina. Sá greiðsluflokkur skerðist um 65% frá fyrstu krónu,“ segir í umsögninni.
Og þetta er útskýrt frekar: „Tekjuskerðing af 200.000 kr. atvinnutekjum með núverandi 109.600 kr. frítekjumark er 123.247 kr. á mánuði, fyrir þann sem fær greidda heimilisuppbót. Stærsti hluti tekjuskerðinganna, eða 80.606 kr. er vegna framfærsluuppbótarinnar, sem skerðist um 65% frá fyrstu krónu. Í nýju mælaborði á heimasíðu TR kemur fram að miðgildi atvinnutekna örorkulífeyristaka í ágúst 2022 var 150.000 kr. á mánuði. Fjórar tíundir eða 40% eða 1.940 manns eru með atvinnutekjur undir 108.000 kr. á mánuði. Fyrir þessa einstaklinga skila atvinnutekjur litlum sem engum ábata sökum 65% skerðingar framfærsluuppbótar frá fyrstu krónu.“
„Aðgengi fatlaðs fólks að vinnumarkaði þyrfti að bæta verulega samhliða því að draga úr tekjuskerðingum vegna atvinnutekna,“ segir í umsögninni. „Til að tryggja atvinnuþátttöku allra, á grundvelli jafnræðis þarf samfélagið allt að vinna að breytingum, þar með hinn opinberi- og almenni vinnumarkaður. Stjórnvöld hafa þá skyldu að vinna að inngildum vinnumarkaði fyrir alla (e. inclusive employment market). Aðgerðir þurfa að fylgja sem gera fötluðu fólki betur kleift að fá atvinnu við hæfi og vera á vinnumarkaði án þess að bera kostnað af atvinnuþátttöku sinni og geta aukið ráðstöfunartekjur sínar með vinnuframlagi sínu.
Í núverandi kerfi gríðarlegra tekjuskerðinga fá öryrkjar kröfu hjá TR ef þeir hefja störf á öðrum tíma ársins en í byrjun árs og ná því ekki að tilkynna um atvinnutekjurnar í tekjuáætlun í upphafi árs. Slíkt fyrirkomulag er fyrir marga mjög kvíðavekjandi og letur fólk til atvinnuþátttöku.“
Sjá nánar á vef ÖBÍ: Skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja.