Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segist ekki búast við að Samtök atvinnulífsins grípi til verkbanns vegna verkfalls Eflingar hjá Íslandshótelum á höfuðborgarsvæðinu. Enn síður trúir hún að stjórnvöld muni grípa inn í kjarabaráttu lægst launaða fólksins á landinu, fátækustu kvennastéttanna.
Sólveig Anna fór yfir stöðuna við Rauða borðið í gær og lýsti undirbúningi Eflingar fyrir átökin fram undan. Innan Eflingar er til orðinn stór hópur fólks með reynslu af verkföllum og meðal félagsmanna er almenn jákvæð reynsla af árangri af verkföllum.
Verkföllin í tengslum við lífskjarasamningana, þar sem Efling dró vagninn, skilað samningum sem almennt eru taldir mjög góðir í dag. Verkföll Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg skiluðu góðum árangri og einnig löng verkföll gagnvart sveitarfélögunum í Kraganum. Því síðasttalda var frestað vegna cóvid en síðan tekið upp að nýju. Það sýndi einurð og staðfestu Eflingarkvenna og skilaði miklum árangri.
Í haust var gerð kjararannsókn meðal félaga í Eflingu sem kröfur félagsins byggja á. Þar kom líka fram að afgerandi meirihluti félagsmanna er tilbúinn í verkfall ef þess þarf til að ná fram leiðréttingu launa. Það hefur líka komið fram í starfi hinnar fjölmennu samninganefndar Eflingar, þar sem saman er komið fólk alls staðar að úr heiminum og úr öllum þeim greinum sem Eflingarfólk starfar innan. Samninganefndin ræddi við starfsfólk Íslandshótela um helgina og þar kom líka fram mikill vilji til aðgerða.
Sólveig Anna sagðist því viss um að forysta Eflingar, ekki bara hún sjálf heldur samninganefndin öll, væri að lesa vilja félagsfólks rétt. Það sætti sig ekki við kjör sín, laun sem ekki duga fyrir framfærslu. Sættir sig ekki við að færa leigusölum sínum 70% af takmörkuðu ráðstöfunarfé sínu. Og það telur að samningar Starfsgreinasambandsins nái ekki að bæta kjör sín svo ásættanlegt sé. Þess vegna vill það leggja áherslu á kröfur sínar og mikilvægi sitt með verkföllum.
Sólveig Anna telur allar líkur á að verkfallsboðunin verði samþykkt. Og þá skipti litlu áróður Samtaka atvinnulífsins og margra annarra gegn verkfalli lægst launaða fólksins á íslenskum vinnumarkaði. Sá áróður nær ekki að blekkja fólk sem veit nákvæmlega hver staða þess er og hvers vegna þarf að bæta hana. Halldóri Benjamín Þorbergssyni og öðrum fimm milljón króna mönnum mun ekki takast að blekkja láglaunafólk sem þolir alla daga óréttlæti samfélagsins.
Sólveig Anna segir að verkföll Eflingar á undanförnum árum hafi ekki notið almenns stuðnings í samfélaginu. Réttsýnt fólk sem þolir illa óréttlæti sem fátækasta verkafólkinu er boðið upp, hefur ætíð stutt félagið. En verkföllin hafa verið háð gegn mikilli andstöðu ráðandi afla og ekki notið neinnar samúðar í fjölmiðlum. Það sem skiptir hins vegar öllu máli og mun skila sigri að lokum er samstaða verkafólksins sjálfs, dugnaður þeirra sem leiða verkfallið og stuðningur félaganna. Og reynsla þessa fólks af kjarabaráttu sem undanfarið hefur sýnt skýrt að verkföll skilar verkafólki kjarabótum.
Heyra má og sjá viðtalið við Sólveigu Önnu í spilaranum hér að ofan.