Ef markmiðið er óbreytt ástand þá er spítalinn fullfjármagnaður

Ef markmið stjórnvalda er að reka spítalann eins og gert er í dag má segja að hann sé fullfjármagnaður og skorti ekki fé, segir Eggert Eyjólfsson bráðalæknir sem gafst upp fyrir stöðunni á bráðadeild Landspítalans fyrir skömmu og hætti. En ef markmiðið er að reka spítalann vel og veita sjúklingum bestu þjónustu þarf líklega að auka framlögin um 40%.

Eggert kom að Rauða borðinu og lýsti ástæðum þess að hann sagði upp og hætti starfinu sem hann í raun menntaði sig til. Ástæðan er vanfjármögnun heilbrigðiskerfisins sem leiðir til þess að Eggert og annan starfsfólk bráðadeildar getur ekki sinnt starfi sínu sem skyldi.

Bráðadeildin er löngu sprungin. Sjúklingar sem ættu að innritast á aðrar deildir komast ekki þangað og sitja fastir á bráðadeild. Ástæðan er að aðrar deildir geta ekki útskrifað aldraða sjúklinga heim þar sem þeir hafa ekki heilsu til þess. En hjúkrunarrými eru of fá svo sjúklingarnir sitja fastir á deildum Landspítalans. Sem geta þá ekki tekið við nýjum sjúklingum frá bráðadeildinni. Sökum þessa hefur bráðadeildin breyst í stærstu legudeild landsins. Þar liggja sjúklingar í öllum rúmum, inn á stofum og úti á gangi. Á venjulegum degi geta 40 sjúklingar legið þar inni á meðan 30 sjúklingar bíða á biðstofunni og fá ekki þjónustu. Og síðan er fólk út í bæ sem veigrar sér við að leita aðstoðar, veit að biðin á bráðavaktinni getur verið margir klukkutímar.

Eggert segir að þetta ástand valdi því að hann og starfsfélagar hans geti ekki sinnt sjúklingum. Það sé ekki boðlegt að biðja mann að girða niðrum sig fram á gangi og sýna lækni hnéð sem hann verkjar í. Samtal við sjúkling fram á gangi eða á yfirfullri stofu er annars konar en ef það fer fram í næði. Þegar aðstaðan er svona slæm lækka væntingar starfsfólksins um hvað það getur gert. Og með tímanum fer fólk að aðlaga sig að hinu slæma ástandi. En einn daginn er komið nóg og fólk hættir. Eggert segist hafa séð á eftir mörgu frábæru samstarfsfólki sem hafi kennt honum mikið. Og starfsfólkið sem eftir er sér á eftir Eggerti, finnst sem bráðadeild sem ekki geti haldið læknum á borð við hann sé að falla saman.

Langvarandi sveltistefna í heilbrigðiskerfinu dregur þannig niður starfsemina, dregur niður starfsfólkið og mátt úr vinnustaðnum. Starfsfólkið er alla daga að slökkva elda og getan til að byggja upp hverfur. Og fólk gefst upp. Fólk sem menntaði sig til þessara starfa og vill í raun hvergi annars staðar vera en á bráðadeild vaknar einn daginn og ákveður að láta ekki bjóða sér þetta lengur.

Og ástandið setur líf sjúklinga í hættu. Spítalinn er illa búinn til að taka við stóráfalli og linnulaust álag við óboðlega ástæður eykur hættu á mistökum.

Þegar fólk eins og Eggert tjáir sig um ástandið, stöðuna á heilbrigðiskerfinu sem allar kannanir sýna að almenningur telur mikilvægasta verkefni ríkisins, þá fá þau svör frá ráðamönnum um að það skilji ekki og viti ekki um hvað það er að tala. Eins og þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra svaraði þegar Eggert sagðist hafa fallist hendur þegar hann las fjárlögin og sá þar ekkert átak til endurreisnar heilbrigðiskerfinu. Þá sagði Bjarni að Eggert kynni ekki að lesa fjárlög. Og að heilbrigðiskerfið væri fullfjármagnað. Að það vanti ekki fjármagn, vandinn sé að það sé óstjórn innan kerfisins.

Eggert segir að þetta kunni að vera rétt. Það er, ef markmiðið sé að reka kerfi eins og staðan er í dag á heilbrigðiskerfinu og eins og Landspítalinn er í dag. En kerfið er ekki nægjanlega gott og alls ekki öruggt. Eggert segist halda að það vanti jafnvel 40% meira fjármagn inn í heilbrigðiskerfið ef markmiðið er að reka hér gott heilbrigðiskerfi. Eins og kannanir segja að almenningur vilji. Heilbrigðiskerfið er dýrt en það er líka mikilvægt og sparar stórkostlega fjármuni með því að koma fólki til heilsu og bjarga lífi þess.

En til að hægt sé að byggja upp gott kerfi þarf að ræða hvar eigi að afla fjár til að standa undir væntingum almennings. Og stjórnmálunum hefur mistekist að finna lausn á því. Það má er varla til umræðu.

Heyra má og sjá viðtalið við Eggert í spilaranum hér að ofan.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí