Árleg skýrsla Oxfam um misskiptingu í heiminum er ákall um að hin ríku verði skattlögð. Bent er á að án skattlagningar muni ójöfnuður enn magnast og auður hinna allra ríkustu verða slíkur að þau geti farið sínu fram í einu og öllu. Auður hinna ríku heldur milljörðum manna í fátækt og kolbrenglar lýðræðið, auður sogar til sín öll völd á sama tíma og fátæktin svipir fólk öllu valdi.
Í skýrslunni kemur fram að 1% ríkasta fólkið hefur sogað til sín 2/3 af öllum nýjum auð, tvöfalt á við það sem ratað hefur til 99% jarðarbúa. Það merkir að hver innan 1% ríkasta hlutans hafi fengið í sinn hlut 198 sinnum meira en meðaltal hinna 99 prósentanna.
Í skýrslunni kemur fram að auður milljarðamæringa í dollurum tali, sem er í dag 143 milljarðar íslenskra króna, hafi aukist um 383 milljarða króna á dag í fyrra. Sem er meira en 1.700 milljónir fátækustu verkamannanna fengu í dagvinnulaun. Sá sem á milljarð dollara umfram skuldir er álíka ríkur og Samherjasamstæðan, auður sem byggður var upp af nýtingu auðlinda almennings á tæpum fjörutíu árum.
Oxfam bendir á að matvæla- og orkufyrirtæki hafi tvöfaldan hagnað sinn árið 2022 með verðhækkunum langt umfram tilefni. Talið er að arður þessara fyrirtækja til eigenda sinna verði af þessum sökum um 37 þúsund milljarðar, fjármunir sem að mestu eru búnir til með okri á almenningi. Á sama tíma er talið að um 800 milljónir manna fari svangir að sofa í kvöld, að stóru leyti börn.
Aðeins 4% af skattheimtu í heiminum kemur frá skattlagningu auðs. Á Íslandi er t.d. enginn auðlegðarskattur og eignaskattar voru lagðir niður 2004. Þá höfðu eignaskattar verið innheimtir á Íslandi síðan tíundin var lögð á árið 1096, í 908 ár. Helmingurinn af milljarðamæringum heimsins býr í löndum, eða skráir lögheimili sitt í löndum, sem hafa engan erfðafjárskatt. Þeir geta því arfleitt börnin sín af auðlegð sinni án þess að þau þurfi að borga krónu í skatt.
5% auðlegðarskattur á milljarðamæringa heimsins og margfalda milljónamæringa gæti aflað skatttekna upp 243 þúsund milljarða. Það fé mætti nota til að lyfta 2 milljörðum manna upp úr fátækt. Það myndi breyta öllu fyrir fátæka fólkið en hin ríku yrði áfram ógeðslega rík og valdamikil.
Oxfam, regnhlífarsamtök góðgerðasamtaka sem berjast gegn fátækt, hefur birt svona skýrslur árlega í þann mund sem ríkasta fólk heims hittist á ráðstefnu í Davos í Sviss að ráða ráðum sínum. Þangað kemur líka stjórnmálafólk að sækja línuna til hinna ríku, frægðarfólk og fjölmiðlafólk. Hingað til hafa skýrslurnar engu breytt, hröðun ójöfnuðar halda áfram að vaxa.
Það sést t.d. á þessu grafi sem sýnir hlutdeild eignatíunda í nýjum auði. Til vinstri eru súlur hinna fátækustu en lengst til hægri eru súlur 1% ríkasta fólksins:
Þarna sést að á cóvid árunum tók 1% ríkasta fólkið meira til sín en á árunum 2012-21. Auðsöfnun er að flytjast í æ meira mæli frá betri settri millistétt og fólki sem er vel sett fjárhagslega yfir til hinna ógeðslega ríku. Kerfið sem við búum við þjónar engum öðrum.