mbl.is veltir upp hvort ekki megi reka Sólveigu Önnu úr Eflingu

Verkalýðsmál 11. jan 2023

„Á mbl.is er því velt upp hvort ekki sé hægt að reka mig og félaga mína úr Eflingu fyrir svokallaða „framkomu” okkar í garð Ólafar Helgu. Það er áhugavert að fylgjast með mikilli og einlægri aðdáun Morgunblaðsins á pólitískum frama-draumum Ólafar Helgu og Trump-ískri staðfestu hennar,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttur formaður Eflingu á Facebook.

Sólveig Anna heldur áfram: „Rætt er við sérfræðing í vinnurétti sem segir að nei, það sé ekki svo einfalt að reka lýðræðislega kjörinn formann félagsins og meirihluta stjórnar. Það eru eflaust sorglegar fréttir fyrir hina og þessa, þeirra á meðal ritstjóra Morgunblaðsins. Það er ekkert talað um möguleika Ólafar á því að grípa einfaldlega til valdaráns í umfjöllun Mbl.is en ég reikna með að sú nálgun verði rædd innan skamms í leiðara blaðsins og hún hvött þar til dáða.“

Við status Sólveigar Önnur er mynd úr frétt mbl.is. Hún ítrekar að þarna er verið að ræða hvort að ekki sé hægt að reka formann og stjórn Eflingar úr félaginu svo að Ólöf Helga geti farið sínu fram.

„Ég veit að best væri fyrir mig að segja ekkert við þessari „fréttamennsku“ og einlægum áhuga Moggans á hetjudáðum Ólafar Helgu, konunnar sem ræðst ítrekað að félagsfólki Eflingar í sí-tryllingslegri tilraunum til að fá athygli í baráttu sinni gegn stjórn félagsins, formanni og samninganefnd, en ég fæ ekki orða bundist,“ skrifar Sólveig Anna.

Hún segir síðan frá fremur nýliðnum atburðum í tilraun til að varpa ljósi á stöðuna í félaginu:

„Eins og þið kannski munið gerði Ólöf Helga tilraun til þess að fá öllum þingfulltrúum Eflingar, 54 talsins, formanni félagsins þar með töldum, vísað af þingi Alþýðusambandsins í haust. Þetta gerði hún þrátt fyrir að kjörbréfanefnd sem starfaði í aðdraganda þingsins á vettvangi ASÍ hefði úrskurðað kjörbréf þingfulltrúa Eflingar lögleg og þrátt fyrir lögfræðilegt álit sem að sýndi fram á val á þingfulltrúum hjá félaginu hefði verið í algjöru samræmi við lög, reglur og hefðir Eflingar. Þessi aðför Ólafar að þingfulltrúum Eflingar, í samvinnu við Agnieszku Ewu, forystusveit ASÍ-ung, og nokkra aðila innan úr SGS félögunum og sjómannafélögunum, vakti auðvitað upp mikil viðbrögð. Eflingar-fólki var skiljanlega sárlega misboðið yfir þessari aðför að félagsfólki og að lýðræðislega kjörinni forystu félagsins, þessari grófu tilraun til að niðurlægja okkur á vettvangi hreyfingarinnar með því að láta reka okkur út af þinginu eins og hvern annan ruslaralýð. Nokkrum dögum eftir aðför Ólafar Helgu og félaga að Eflingar-fólki barst mér áskorun, undirrituð af því sem næst öllum þingfulltrúum Eflingar, þar sem skorað var á trúnaðarráð að beita 8. grein laga félagsins til að svipta Ólöfu Helgu og Agnieszku Ewu rétti til að sinna trúnaðarstörfum á vegum félagsins, vegna þess tjóns og ógagns sem þær höfðu bakað félaginu með fordæmalausu framferði sínu á þingi ASÍ. Þetta er einmitt sú grein laga félagsins sem að Mbl.is vísar til í umfjöllun sinni um hvort ekki sé hægt að reka formann, stjórn, og samninganefnd burt úr Eflingu svo að Ólöf Helga geti tekið við stjórnartaumunum. 

Ég meðtók áskorun þingfulltrúa og tók hana mjög alvarlega. Undir hana ritaði stór hópur félagsfólks sem tekið hefur virkan þátt í baráttu félagsins. Sem formanni ber mér að hlusta á raddir félagsfólks. En ég komst að þeirri niðurstöðu að eiga samtal við þetta góða og frábæra fólk þar sem ég bað þau um að sýna því skilning að mín afstaða væri að ekki væri rétt að fara þessa leið. Að þær stöllur væru meðlimir í stjórn félagsins. Og að við þyrftum að gera okkar besta til að reyna að lifa með því, þrátt fyrir að framferði þeirra væri óþolandi og í raun ólíðandi. Ég veit að ef tillaga þingfulltrúa Eflingar hefði verið borin upp á trúnaðarráðsfundi hjá félaginu hefði hún verið samþykkt. Framferði Ólafar, stöðugar árásir á kjörna forystu félagsins, stöðugar tilraunir hennar til að hleypa upp starfi félagsins, innbrot hennar og Agnieszku Ewu í tölvupósthólf mitt og útprentanir á tölvupósti mínum, aðför að störfum samninganefndar félagsins í harðri kjaradeilu; allt þetta hefur auðvitað gert það að verkum að þolinmæði fólks gagnvart henni og varaformanni er á þrotum. 

Ég tel enn að það hafi verið rétt ákvörðun hjá mér að eiga samtal við þingfulltrúa Eflingar og biðja þá um að hlífa Ólöfu Helgu við þeirri niðurlægingu að vera svipt rétti til að gegna trúnaðarstörfum. Þrátt fyrir að ég hafi í raun verið afstöðu þeirra sammála, að Ólöf Helga sé ekki fær um að starfa af trúnaði og hollustu við félagsfólk og að framferði hennar sanni það og sýni aftur og aftur. Þrátt fyrir að stjórn og nú samninganefnd hafi þurft að þola endalausan illvilja og hefnigirni Ólafar Helgu gagnvart lýðræðislega kjörinni forystu félagsins. Þrátt fyrir að aðför hennar að samninganefnd félagsins fari eflaust í sögubækurnar sem eitt af lágkúrulegustu dæmum sem hægt er að hugsa sér um persónulega framasýki ofar hagsmunum annara. 

Ég hef vonað og vona enn að Ólöf Helga leyfi lýðræðislega kjörinni forystu félagsins að starfa án þess að við þurfum að sitja undir stöðugum árásum. Ég hef vonað og vona enn að hún leyfi samninganefnd að halda áfram sínu mikilvæga og góða starfi í þágu félagsfólks, án þess að þurfa að þola að manneskja sem nýtur einskis trausts, manneskja sem setur eigin hagsmuni í heyranda hljóði og fyrir allra augum ofar hagsmunum allrar samninganefndarinnar og þeirra sem hún er að vinna fyrir, manneskja sem er með beina niðurrifs-útsendingu á Mbl.is bókstaflega heilu dagana til að grafa undan kjarabaráttu vinnuafls höfuðborgarsvæðisins, þröngvi sér upp á nefndina í óþökk allra þar. Ég veit ekki alveg afhverju ég er að vona þetta. Það er auðvitað fremur augljóst að einstaklega ólíklegt er að svo verði. En kannski getur einhver liðsinnt Ólöfu Helgu og leitt henni fyrir sjónir að eitthvað viðlíka og nýjasta aðför hennar, nú gagnvart verkafólki í harðri kjaradeilu er sjaldséð, nema af hálfu harðsvíraðra atvinnurekenda og áróðursmeistara þeirra. Að kannski sé tímabært fyrir hana, sérstaklega með það í huga að hún er á framabraut innan Samfylkingarinnar sem vonarstjarna svokallaðs verkalýðsráðs flokksins, að snúa sér að öðru en auðvirðilegu niðurrifi og ógeðslegri aðför að hagsmunum verka og láglaunafólks. Kannski getur einhver hjálpað henni að skilja að það eru mjög raunverulegar og veigamiklar ástæður fyrir því að hún er ekki velkomin á fundi samninganefndar og að sem fullorðin manneskja eigi hún að reyna að horfast í augu við eigið framferði og þær afleiðingar sem að það hefur haft.

Að lokum: Vegna mikils áhuga vissra aðila á samsetningu samninganefndar Eflingar, vegna áróðurs félaganna Ólafar Helgu og Halldórs Benjamíns um að eitthvað sé athugavert við nefndina, vil ég koma þessu á framfæri:

Það voru 89 Eflingarfélagar skipaðir í samninganefnd Eflingar á fundi trúnaðarráðs þann 20. október 2022. Af þessum 89 starfar 61 undir kjarasamningum við SA og 28 undir opinberu og afleiddum samningum. Líkt og ávallt hefur verið hjá Eflingu þá starfar ein sameiginleg samninganefnd fyrir alla kjarasamningagerð meðan samningar eru lausir, en nefndinni er heimilt að skipta með sér verkum skv. 18. grein laga Eflingar,“ endar Sólveig Anna færslu sína.

Myndin sem hér fylgir er af fundi Halldórs Benjamíns Þorbergssonar formanni Samtaka atvinnulífsins og Ólafar Helgu Adolfsdóttur ritara Eflingar í Karphúsinu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí