Reykjavíkurborg sendi í gær út tilkynningu vegna mengunar sem var þá farin að mælast langt yfir heilsuverndarmörkum. Almenningur var af þeim ástæðum hvattur til þess að draga úr notkun bíla og nýta sér almenningssamgöngur. Á sama tíma birtist fjöldi mynda og frásagna af snjóhaugum á samfélagsmiðlum sem komu í veg fyrir aðgengi að stoppistöðvum og biðskýlum.
Klukkan eitt í gær var klukkutímagildi köfnunarefnisdíoxíðs við Grensásveg 246,2 míkrógrömm á rúmmetra og styrkurinn var einnig yfir 200 míkrógrömmum klukkan ellefu og tólf. Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir eru 75 míkrógrömm á rúmmetra en leyfilegt klukkustundargildi er 200 míkrógrömm á rúmmetra. Efnið veldur ertingu og óþægindum í lungum og öndunarvegi.
Á samfélagsmiðlum hefur birst fjöldi mynda af slæmu aðgengi að biðskýlum. Erfitt getur því reynst fyrir marga að komast í strætó, og ómögulegt fyrir aðra, sérstaklega hreyfihamlað fólk. Myndin hér að neðan er tekin fyrir utan Egilshöll í Grafarvogi. Eins og sést er hér lítill hvati fyrir íbúa í grenndinni til að nýta sér almenningssamögnur.
Með því að smella á hlekkinn hér sjást fleiri myndir af ómokuðum stoppistöðvum og biðskýlum: https://www.facebook.com/groups/billaus/?multi_permalinks=10158824132066560¬if_id=1672867777619049¬if_t=feedback_reaction_generic&ref=notif