Verkbannsboðun Samtaka atvinnulífsins er sannarlega söguleg. Síðast var takmörkuðu verkbanni beitt á sjómenn seint á síðustu öld en engin dæmi eru um jafn víðtæk verkbönn eins og stjórn SA boðar nú. Stjórnin samanstendur af fulltrúum stærstu fyrirtækja landsins, þar sitja bankastjórar, stórforstjórar og fulltrúar auðugasta fólksins á Íslandi.
Meðal stjórnarmanna eru bankastjórar Íslandsbanka og Aríonbanka, Birna Einarsdóttir og Benedikt Gíslason. Þar er líka forstjóri Icelandair, Bogi Nils Bogason. Stórútgerðin á þar fulltrúa; Brim, Ísfélagið og Rammi, auk þess sem Heiðrún Lind Marteinsdóttir situr þar fyrir hönd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, er í stjórninni, fulltrúi Eimskips, Marel, Íslenskra aðalverktaka og meira að segja Landsvirkjunar.
Samtök atvinnulífsins eru ekki lýðræðisleg samtök í venjulegum skilningi. Þar hefur ekki hver maður eitt atkvæði heldur hefur hver króna eitt atkvæði. Atkvæðamagnið skiptist eftir þeim krónum sem fyrirtækin greiða til samtakanna í félagsgjöld. Og félagsgjöldin taka mið af launaveltu fyrirtækjanna. Þegar stórfyrirtækin hafa greitt sín atkvæði er lítil sem engin leið fyrir smáfyrirtækin að hafa áhrif á stefnuna. Og innan stórfyrirtækjanna eru það stærstu eigendurnir sem leiða stefnuna. Það er því ríkasta fólkið á Íslandi sem stjórnar ferðinni.
Og þetta sést á stjórn samtakanna, sem tók þessa ákvörðun. Þar eru fyrst og fremst fulltrúar allra stærstu eigenda allra stærstu fyrirtækjanna og auðugustu fjármagnseigendanna. Þótt flest launafólk starfi hjá litlum og meðalstórum félögum eru það fyrst og fremst stórfyrirtækin sem stýra Samtökum atvinnulífsins og hafa mótað stefnu þessu. Og tekið ákvörðun um að efna til fyrsta víðtæka verkbannsins í sögu landsins.
Stjórn SA samþykkti að boða verkbann 14. febrúar, fyrir tæpri viku, sama dag og Guðmundur Ingvi Guðbrandsson vinnumarkaðsmálaráðherra skipaði Ástráð Haraldsson sem sáttasemjara í deilunni. Samþykkið lá fyrir áður en viðræður við Eflingu hófust á fimmtudaginn, en var ekki gert opinbert fyrr en í morgun.
Þetta er fólkið sem leggur til víðtækt verkbann 1. mars sem mun lama samfélagið, stjórn SA 2022-23:
Stjórnarmaður | Fyrirtæki |
---|---|
Arna Arnardóttir | Samtök iðnaðarins |
Árni Sigurjónsson | Marel |
Benedikt Gíslason | Arion banki |
Birna Einarsdóttir | Íslandsbanki |
Bjarnheiður Hallsdóttir, varaformaður | Katla DMI |
Bogi Nils Bogason | Icelandair |
Edda Rut Björnsdóttir | Eimskip |
Einar Sigurðsson | Ísfélagið |
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður | fyrrum forstjóri Mannvits |
Guðrún Jóhannesdóttir | Kokka |
Gunnar Egill Sigurðsson | Samkaup |
Heiðrún Lind Marteinsdóttir | Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi |
Hjörleifur Stefánsson | Nesraf |
Jón Ólafur Halldórsson | Olís |
Jónína Guðmundsdóttir | Coripharma |
Magnús Hilmar Helgason | Launafl |
Ólafur Marteinsson | Rammi |
Rannveig Rist | Rio Tinto á Íslandi |
Sigurður R. Ragnarsson | Íslenskir aðalverktakar |
Tómas Már Sigurðsson | HS Orka |
Ægir Páll Friðbertsson | Brim |
Á myndinni sem fylgir eru Bogi Nils, Benedikt og Birna.