Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur fundað meira en 176 sinnum með talsmönnum evrópskra banka síðan Ursula von der Leyen tók við embætti sínu undir lok ársins 2019. Á þessu tímabili hefur kvarnast verulega úr regluverki um eiginfjárauka bankanna. Mest fer fyrir Deutsche Bank og Commerzbank, sem spiluðu stóra rullu í fjármálahruninu 2008.
Evrópski seðlabankinn hefur gagnrýnt áforminn um lægri eiginfjárauka. Framkvæmdastjórnin hefur samt ekki haggast. Ef bankalobbíiustum tekst að hnika til reglum um eiginfjárauka er hægt að nýta eigið fé í arðgreiðslur, hraðari útlánavöxt eða blöndu hvoru tveggja.
Eiginafjáraukar eru hluti af þjóðhagsvarúð sem komið var á af alþjóðlegum starfshópi árið 2010 og nefnist Basel III. Á Íslandi er þessum reglum enn sem komið er framfylgt, enda lögfestar árið 2016, og tryggja að bankar hafi svigrúm til að bregðast við því þegar gæði útlána versnar hratt. Eitt af því sem reynt er að forðast með hærri eiginfjáraukum er að ríkið þurfi síður að hlaupa undir bagga eins og dæmin hafa sýnt að sé gjarnan raunin þegar krosstengdar fjármálastofnanir standa höllum fæti.
Þegar talsmenn fjármagnseigenda tala um eiginfjárauka beina þeir gjarnan umræðunni að þeirri staðreynd að eiginfjáraukarnir séu hærri hér heima en annarstaðar – sem sé ósanngjarnt og þrengi að rekstri fjármálakerfisins sem skilar reglulega miklum hagnaði.