Gætu borgað miklu hærri laun en samt grætt á tá og fingri

Það myndi aðeins kosta Íslandshótel 85 m.kr. að ganga að kröfum þeirra 297 starfsmanna sem fara í verkfall eftir helgi. Það myndi hafa lítil áhrif á reksturinn, draga lítillega úr hagnaði en skilja feiki nóg eftir. Eigendurnir yrði svo til jafn auðugir á eftir. 297 ræstingakonur myndi hins vegar geta lifað af launum fyrir fulla vinnu. Eða næstum því.

Kjaradeila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins hefur dregið fram allskyns átök og inn í deiluna blandast alls kyns pólitík. En í grunninn er þetta deila um krónur og aura. Launafólkið vill fá meira greitt fyrir vinnuna sem það selur. Og eigendur fyrirtækja vilja ekki verða við þessum kröfum.

Við skulum reyna að átta okkur á um hvað er deilt. Og taka kröfur herbergisþerna á Íslandshótelum gagnvart eigendum þess fyrirtækis sem dæmi.

Öðrum megin eru hagsmunir þeirra 297 Eflingarfélaga sem starfa hjá hótelunum. Hinum megin eru hagsmunir eigenda hótelanna. Þeir eru Ólafur D. Torfason, sem á um 74% í fyrirtækinu, og lífeyrissjóðir sem eiga megnið af því sem eftir er.

Af 297 félögum í Eflingu sem starfa á Íslandshótelum kusu 189 um verkfallsboðun. 58 vildu ekki fara í verkfall, 7 skiluðu auðu en 124 samþykktu að fara í ótímabundið verkfall frá 7. febrúar til að knýja um launahækkanir.

Hver eru kjörin?

Fólk sem vinnur við þrif á hótelum fær í dag greitt samkvæmt 6. launaflokki Eflingar. Þessi launaflokkur er svona í dag, laun fyrir fulla vinnu í 172 stundir á mánuði:

ÞrepLaunÚtborgað
Byrjun370.891 kr.301.145 kr.
Eftir 1 ár372.761 kr.302.362 kr.
Eftir 3 ár374.658 kr.303.597 kr.
Eftir 5 ár376.584 kr.304.851 kr.

Frá launum eru dregin tekjuskattur og útsvar, 4% iðgjöld í lífeyrissjóð og 0,7% félagsgjöld til Eflingar. Takið eftir hvað það er lítill munur á byrjunarlaunum og launum eftir fimm ár hjá sama fyrirtækinu. Sú sem hefur unnið í fimm ár hjá Íslandshótelum fær aðeins 3.707 kr. meira útborgað en sú sem byrjaði í gær.

Það sjá flestir í hendi sér að það er ekki hægt að lifa af þessum launum. Umboðsmaður skuldara gefur reglulega út framfærsluviðmið. Þau eru notuð til að meta hvað fólk þarf að halda eftir til framfærslu áður en það ræður við að greiða niður skuldir.

Umboðsmaður reiknar kostnað við fæði, klæði, tómstundir, heilbrigðisþjónustu, tómstundir, samgöngur og samskipti en ekki húsnæðiskostnað, hita, rafmagn eða tryggingar. Síðast voru viðmiðin endurnýjuð í sumar, en ef við reiknum inn hækkanir á þessum liðum frá þeim tíma samkvæmt mælingum Hagstofunnar þarf einstaklingur 202.500 kr. í neyslu eftir að hafa borgað skatta, gjöld, húsaleigu og annað sem umboðsmaður skuldara reiknar ekki inn í viðmiðin sín.

Til að bæta við því sem á vantar skulum við taka 50 fermetra íbúð á höfuðborgarsvæðinu og tilheyrandi orkukostnað og bæta einnig við tryggingum. Í sumar var þessi kostnaður 191.500 kr. en er í dag orðinn um 200.250 kr. miðað við hækkanir á þessum liðum samkvæmt Hagstofu. Til frádráttar koma 40.633 kr. húsnæðisbætur svo framfærslukostnaðurinn er 362.117 kr.

Þetta er þá staða þeirra 297 félaga í Eflingu sem vinna við ræstingar hjá Íslandshótelum:

ÞrepÚtborgaðFramfærslaStaða
Byrjun301.145 kr.362.117 kr.-60.972 kr.
Eftir 1 ár302.362 kr.362.117 kr.-59.755 kr.
Eftir 3 ár303.597 kr.362.117 kr.-58.520 kr.
Eftir 5 ár304.851 kr.362.117 kr.-57.266 kr.

Hvað gerir fólk í þessari stöðu? Sumt ræður sig í aðra vinnu, stundum tvö önnur störf til að lifa af. En fólk í þessari stöðu neitar sér líka um margt sem Umboðsmaður skuldara telur nauðsynlegt til að lifa af. Kannanir hafa sýnt að lágtekjufólk neitar sér um læknishjálp og aðrar nauðsynar. Hér er reiknað með að ræstingakonan leigi 50 fermetra íbúð. Margt fátækt fólk getur ekki búið svo vel, leigir herbergi eða býr með öðrum. Ræður ekki við að eiga heimili í venjulegum skilningi þess orðs.

Hverjar eru kröfur Íslandshótela?

Tilboð Íslandshótela í gegnum Samtök atvinnulífsins til þessara 297 félaga í Eflingu er að skrifa undir sama samning og Starfsgreinasambandið samdi um í desember. Samkvæmt honum yrði staðan þessi eftir útborgun:

ÞrepÚtborgaðFramfærslaStaða
Byrjun324.599 kr.362.117 kr.-37.518 kr.
Eftir 1 ár327.248 kr.362.117 kr.-34.869 kr.
Eftir 3 ár331.262 kr.362.117 kr.-30.855 kr.
Eftir 5 ár336.694 kr.362.117 kr.-25.423 kr.

Þarna hefur mínusinn lækkað um rúmar 23 þús. kr. og upp í tæpar 32 þús. kr. Mínusinn hefur minnkað um helming hjá fólkinu með lengsta starfsreynslu en hann situr þarna eftir, hrópandi. Hjá umboðsmanni skuldara er kostnaður við mat og hreinlætisvörur uppreiknaðar í dag rúmlega 60 þús. kr. fyrir einstakling. Byrjandinn á mat fram á 12. hvers mánaðar, sú sem hefur unnið í fimm ár getur borðað fram á þann 18. Eftir það tekur hungrið við.

Það ætti því engan að undra að Eflingarfólkið á Íslandshótelum sætti sig ekki við þennan samning. Með því að skrifa undir hann er það í raun að skrifa undir að það hafi ekki rétt á að eiga í sig og á fyrir fulla vinnu.

En áður en við komum að kröfum Eflingarfólksins skulum við skoða áhrif verðbólgunnar á þessi laun út samningstímann. Þegar Starfsgreinasambandið skrifaði undir sinn samning lá til grundvallar áætlun um að verðbólgan á síðasta ári yrði 8,2% en verðbólgan á þessu ári 5,6%. Verðbólgan á síðasta ári varð 9,6% og hagdeild Íslandsbanka spáði nýlega að verðbólgan á þessu ári yrði 7,6%.

Við setjum þær forsendur inn í súlurit sem sýnir meðaltal útgreiddra launa ræstingarfólks fyrir fulla vinnu frá janúar 2021 fram til loka samnings Starfsgreinasambandsins í janúarlok 2024.

Þarna sést hversu hægt og illa gengur að hækka laun ræstingarfólksins. Venjulegar launahækkanir, hagvaxtaraukar og lagfæringar á persónuafslætti ýta útborguðum launum upp en verðbólgan grefur jafn harðan undan þeim.

Mínusinn hjá ræstingarfólkinu er í dag 32.165 kr. að meðaltali. Við lok samningstímann verður hann kominn í 55.475 kr. að meðaltali. Rauða línan sýnir þá stöðu. Verðbólgan á eftir að éta 23.310 kr. af útborguðum launum á verðlagi dagsins.

Við lok samningstímans verða útborguð laun rétt rúmlega 4 þús. kr. verðmeiri en þau voru í október síðastliðnum, áður en nýir samningar tóku gildi. En þau verða rúmlega 12.600 kr. verðminni en þau voru í janúar á síðasta ári og tæplega 8.300 kr. verðminni en þau voru í janúar 2021.

Með öðrum orðum gengur ekkert að bæta kjör ræstingarfólksins hjá Íslandshótelum. Þau versna, ef eitthvað er.

Hvert er tilboð Eflingar?

Og þá komum við að kröfum Eflingar. Þær eru um eilítið hærri hækkanir taxta en eru í samningi Starfsgreinasambandsins og auk þess 15 þús. kr. framfærsluuppbót, sem rökstudd er með hærri húsnæðiskostnaði á höfuðborgarsvæðinu en í öðrum landshlutum. Við skulum fella þessi uppbót inn í taxtann og skoða samanburð á töxtunum eins og þeir eru, samning SGS og kröfum Eflingar að viðbættri framfærsluuppbót, sem er auðvitað bara laun þegar upp er staðið.

ÞrepÍ dag
Efling
Samn.
SGS
Krafa
Eflingar
Byrjun370.891 kr.406.914 kr.426.914 kr.
1 ár/18 mán.372.761 kr.410.984 kr.440.984 kr.
3 ár374.658 kr.417.148 kr.444.148 kr.
5 ár376.584 kr.425.491 kr.447.491 kr.

Krafa Eflingar eru um 20 þús. kr. meira en er í samningum Starfsgreinasambandsins fyrir byrjunarlaun, 30 þús. kr. meira eftir 18 mánuði en eins árs starfsaldur gefur hjá SGS, 27 þús. kr. eftir 3 ár og 22 þús. kr. eftir fimm ár. Það er sem sé ólík áhersla á starfsaldurshækkanir.

Þegar búið er að draga skatta og gjöld af laununum samkvæmt kröfum Eflingar er staðan þessi:

ÞrepÚtborgaðFramfærslaStaða
Byrjun337.620 kr.362.094 kr.-24.474 kr.
Eftir 18 mán345.913 kr.362.408 kr.-16.495 kr.
Eftir 3 ár347.775 kr.362.756 kr.-14.981 kr.
Eftir 5 ár349.743 kr.363.123 kr.-13.380 kr.

Kröfur Eflingar duga með öðrum orðum ekki til. Ræstingafólkið er enn í mínus, vantar sem nemur sjö til tólf daga matarútgjöld til að sleppa í gegnum mánuðinn. Það nær ekki að lifa því sem mætti kalla eðlilegt líf miðað við lágmarkskröfur. Líf sem Umboðsmaður skuldara ætlar gjaldþrota fólki. Þetta væru staðan jafnvel þótt gengið yrði að kröfum Eflingarfólksins sjálfs.

Og takið eftir að framfærslan eykst með starfsaldri. Ástæðan er að húsnæðisbætur byrja að skerðast hjá fólki sem ekki er með nægar tekjur fyrir framfærslu.

Og takið eftir öðru. Þótt krafa Eflingar sé 22 þús. kr. hærri í efsta þrepi en í samningum SGS þá batnar hagur fólksins í því þrepi aðeins um 12.043 kr. Restin fer í skatta og gjöld og skertar húsnæðisbætur. Af 20 þús. kr. launahækkun heldur fólkið aðeins eftir 60%. Mest af hinu fer til ríkisins, rúm 35%. Það er ein af ástæðum þess hversu illa láglaunafólki gengur að bæta stöðu sína, ríkið tekur til sín stóran part af öllum ávinningi fólksins af kjarabaráttunni. Ríkið tekur frá fólki sem á ekki fyrir mat.

Og þar sem við þurfum að reikna heildarlaunakostnað vegna þessara 297 félaga í Eflingu sem eru á leið í verkfall hjá Íslandshótelum, skulum við skoða hvað ríkið tekur af láglaunafólkinu.

Hvað tekur ríkið?

Til einföldunar skulum við aftur miða við meðaltal 6. launaflokks, meðaltal aldursþrepanna fjögurra. Svona eru laun og launatengd gjöld í dag:

Meðallaun 6. launaflokks:373.724 kr.
Lífeyrissjóður 4,0%:-14.948 kr.
Staðgreiðsla:-53.170 kr.
Félagsgjald 0,7%:-2.616 kr.
Frádráttur alls:-70.734 kr.
Útborguð laun:302.990 kr.
Gjöld utan launaseðils:
Lífeyrissjóður 11,5%:42.978 kr.
Endurhæfingarsjóður 0,1%:374 kr.
Sjúkrasjóður 1,0%:3.737 kr.
Orlofssjóður 0,25%:934 kr.
Starfsmenntasjóður 0,3%:1.121 kr.
Tryggingagjald 6,35%:26.461 kr.
Gjöld utan launaseðils alls:75.605 kr.
Heildarlaun:449.329 kr.

Af 449.339 kr. heildarlaunum fær láglaunakonan aðeins 302.990 kr. í launaumslagið, 67%. Þriðjungur af heildarlaununum fara annað. Skiptingin er svona:

ÞátttakendurUpphæðHlutfall
Heildarlaun449.329 kr.100,0%
Ríki og sveit79.630 kr.17,7%
Lífeyrissjóður57.927 kr.12,9%
Stéttarfélög8.783 kr.2,0%
Launamaður302.989 kr.67,4%

Ef við gerum síðan ráð fyrir að Íslandshótel gangi að öllum kröfum ræstingarfólksins þá myndi ávinningurinn skiptast svona:

ÞátttakendurUpphæðHlutfall
Heildarlaun79.545 kr.100,0%
Ríki og sveit25.459 kr.32,0%
Lífeyrissjóður10.255 kr.12,9%
Stéttarfélög1.555 kr.2,0%
Launamaður42.276 kr.53,1%

Þarna sést að af hverri krónu sem ræstingarfólkið nær að sækja sér með kjarabaráttu tekur ríki og sveitarfélög næstum þriðjung og aðeins rúmur helmingur hækkar ráðstöfunartekjur fátæka fólksins.

Ef gengið yrði að kröfum Eflingar yrðu meðaltals skattgreiðslur af heildarlaunum ræstingarfólksins 19,9%, það er tekjuskattur, útsvar og tryggingargjald. Þetta er nánast sama skatthlutfall og tekjuskattur fyrirtækja, eilítið lægri en hlutfall fjármagnstekjuskatts. Það getur varla talist sanngjarnt, að fátækasta launafólkið greiði skatta í sama hlutfalli og stærstu fyrirtæki og auðugustu fjármagnseigendurnir.

Hvað kosta kröfurnar?

Í dag eru meðal heildarlaun ræstingarfólks fyrir fulla vinnu 449.329 kr. eins og fram kom hér að ofan. Heildarlaunakostnaður 297 Eflingarfélaga hjá Íslandshótelum fyrir fulla vinnu eru þá 1.601 m.kr. á ári.

Með tilboði Íslandshótela, það er samkvæmt kjarasamningi Starfsgreinasambandsins, myndi launakostnaðurinn hækka í 499.117 kr. sem gera 1.779 m.kr. á ári fyrir 297 manns. Þetta er hækkun upp á 177 m.kr. sem gera 11,1%.

Samkvæmt tilboði Eflingar færu meðal heildarlaunin upp í 528.874 kr. og launakostnaður vegna 297 starfsmanna yrði þá 1.885 m.kr. á ári, sem er 106 m.kr. ofan á tilboð Íslandshótela. Samanlagt myndi tilboð Eflingar hækka launakostnað Íslandshótela vegna Eflingarfélaga um 283 m.kr. frá því sem nú er eða um 17,7%.

Til að bera þessar hækkanir saman við verðbólguna skulum við taka tímann frá síðustu launahækkun, í apríl í fyrra þegar hagvaxtarauki datt inn, og til loka samningstíma Starfsgreinasambandsins. Verðbólga yfir þennan tíma, í 21 mánuð, hefur verið og er spáð að verði 14,4%. Samningur Starfsgreinasambandsins er því um 3% kjaraskerðingu en kröfur Eflingar um 3% kjarabót.

Í tölum Hagstofunnar um verðvísitölu hótelgistingar sést að verð á gistingu yfir sumarið í fyrra var 12-20% dýrari en sumarið áður. Gengi krónunnar er nú tæplega 9% veikara en það var síðasta sumar svo það svigrúm fyrir gististaði að hækka verð í íslenskum krónum án þess að það hækki í gjaldmiðli gestanna. Og gestirnir koma frá löndum þar sem verðbólga er há og verð á allskyns vöru og þjónustu hefur hækkað.

Kröfur Eflingar eru því í ágætu samræmi við hækkun almenns verðlags og hækkun á hótelgistingu og annari þjónustu hótela, sem hefur hækkað enn meira en gistingin. Það er ekki hægt að krefjast þess að 297 starfsmenn Íslandshótela haldi niðri verði á gistingu með því að fá laun sem ekki duga fyrir framfærslu.

Íslandshótel ættu því að geta hækkað launin án þess að lenda í vandræðum. Það er ef fyrirtækið hefur borð fyrir báru.

Ráða Íslandshótel við launahækkun?

Íslandshótel eru stöndugt fyrirtæki sem hefur auðgað eigendur sína. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2021 átti félagið eigið fé upp 21,6 milljarð króna á núvirði. Fyrirtækið var rekið með 3,5 milljarða króna hagnaði það ár, þótt þá hafi enn gætt áhrifa af cóvid-faraldrinum.

Ef við tökum lengri tíma þá var að meðaltali 2,5 milljarða króna hagnaður á rekstri Íslandshótela á sex ára tímabili frá 2016 til 2021. Og var cóvid þó hluti tímans. Á þessu tímabili hækkaði eigið fé félagsins að meðaltali um 810 m.kr. á ári þótt eigendurnir hafi greitt sér 125 m.kr. í arð að jafnaði.

Ef við tökum lengra tímabil þá hefur reksturinn skilað um 2,1 milljarði króna á núvirði í rekstrarafgang áður en kemur að fjármagnskostnaði, afskriftum og sköttum að meðaltali á ári yfir tíu ára tímabil. Og er þá cóvid innifalið. Tvö árin fyrir cóvid var rekstrarhagnaður, EBITDA, félagsins 3,0-3,2 milljarðar króna. Þau tvö ár var EBITDA félagsins 28% af tekjum. Og þegar búið var að borga fjármagnskostnað og tekjuskatt og bókfæra afskriftir eigna sátu 11% af tekjunum eftir sem hreinn hagnaður. Við þetta bættist síðan hækkun á fasteignum félagsins svo endanlegur hagnaður varð 18,5% af tekjum.

Þetta er því félag sem er með rekstur sem skilar miklum hagnaði og er með feikisterkan efnahagsreikning. En getur það hækkað laun ræstingarfólksins í Eflingu, fólksins sem er á svo lágum launum að það á vart í sig og á?

Við skulum gefa okkur að hækkunin sem Íslandshótel bjóða, sú sem er innan samninga Starfsgreinasambandsins, sé innan eðlilegra verðbreytinga. Áætlum síðan að kröfur Eflingar séu þar umfram. Það er þó ólíklegt því ætla má að megnið af kröfum Eflingar rúmist einnig innan verðbreytinga. Og ef við uppreiknum tekjur félagsins frá árunum fyrir cóvid og reiknum með sömu framlegð má ætla að kröfur Eflingar geti lækkað EBITDA-hlutfallið úr 28,4% í 27,8%. Í mesta lagi.

Og þegar þessi aukaútgjöld ferðast niður ársuppgjörið kemur að því að 106 m.kr. aukinn útgjöld munu dragast frá tekjum og lækka tekjuskatt fyrirtækisins um rúma 21 m.kr. Byrði fyrirtækisins af því að fallast á kröfur Eflingar verður því aðeins 85 m.kr.

Og þá getur svo farið að hagnaður fyrirtækisins sem hefur verið 2.509 m.kr. að meðaltali síðustu sex árin verði í ár 2.424 m.kr. Til að gefa mynd af áhrifum launahækkananna.

Þetta virkar ekki sem stórkostlegur munur. Og allra síst í samanburði við hvað það myndi skipta starfsfólkið miklu, þau 297 sem eru á leið í verkfall til að krefjast þess að fá laun sem komast nærri því að duga fyrir framfærslu.

Fjármálavæðing hugarfarsins

En eitt getur spilað inn í. Eigendur Íslandshótela hafa stefnt að því að skrá félagið í kauphöll og EBITDA félagsins getur haft áhrif á verðlagningu. Félög á neytendamarkaði í kauphöll eru metin á fimm, sex og sjöfaldri EBITDA og þar umfram. Það er því ekki einhlítt að meta félög aðeins út frá þessari stærð, margt annað spilar inn í. En ef við gefum okkur að EBITDA hafi áhrif og Íslandshótel séu metin á 5-7 faldri EBITDA þá getur 106 m.kr. aukinn launakostnaður lækkað verðmat á fyrirtækinu um 530-740 m.kr. Og stærsti eigandinn, Ólafur D. Torfason sem á 74% í félaginu, fengið lægri verðmiða á eign sína sem næmi 390-550 m.kr.

Svona getur fjármálavæðing fyrirtækjarekstrar skekkt myndina. Það sem er skynsamlegt og sanngjarnt í venjulegum fyrirtækjarekstri, að borga 85 m.kr. sem er aðeins brot af tekjunum, til að halda starfsfólkinu yfir hungurmörkum, getur orðið að stórum tölum í kauphöllinni.

Það er ljóst að Íslandshótel hafa vel efni á að fallast á kröfur 297 Eflingarfélaga sem hafa neyðst í verkfall. Það má hins vegar vel vera að stærsti eigandinn tími því einfaldlega ekki, að hann vilji verða aðeins ríkari. Jafnvel þótt það kosti að 297 manns svelti í lok hvers mánaðar.

Um þetta eru þessi átök. Hvort 297 manns hafi efni á að borða út mánuðinn. Eða hvort að einn maður á 21 milljarð króna í hlutabréfum eða 21,4 milljarð króna. Þessi spenna er tilkomin vegna þess að hinn svokallaði markaður verðlaunar þá sem halda fátæku launafólki undir hungurmörkum.

Hvað eru stjórnvöld að hugsa?

Eins og sést af dæminu hér að ofan er þetta deila um hvar rúmar 106 m.kr. eiga að lenda. 20% af þeirri upphæð mun lækka tekjuskatt Íslandshótela en hækka aftur á móti skattgreiðslur launafólksins. Þetta er því í raun aðeins spurning um hvort það sé þjóðhagslega hagkvæmt að Íslandshótel gefi eftir 85 m.kr. af hagnaði sínum svo starfsfólki geti fætt sig og klætt.

Að teknu tilliti til inn og út-færslna á skattgreiðslum lítur dæmið svona út:


Þátttakandi

Tilfærsla
Íslandshótel-84,8 m.kr.
Ríki og sveit14,5 m.kr.
Lífeyrissjóður13,7 m.kr.
Stéttarfélög2,1 m.kr.
297 starfsmenn54,6 m.kr.

Það er eitt af undrum veraldar hvers vegna stjórnvöld leggja alla áherslu á að þessar tæpu 85 m.kr. verði áfram hjá eigendum Íslandshótela. Hvers vegna er það betra fyrir samfélagið en að ræstingakonurnar fái launahækkun og eyði henni í nauðsynjar, að ríki og sveitarfélög fái skattgreiðslur, að fé renni í lífeyrissjóði verkafólks og í sjúkrasjóði, menntasjóði og til frekari stéttabaráttu?

Hvernig má það vera að það dragi úr verðbólgu að Ólafur D. Torfason hafi þessi peninga en auki verðbólguna ef fátækt launafólk fær þá?

En stjórnvöld eru svo viss í sinni sök að þau mæta þessum 297 ræstingakonum af miskunnarlausu ofstæki, sameinuð í öllu sínu veldi; ráðherrar, seðlabankastjórar og ríkissáttasemjari leggjast á sveif með Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði og svo til öllum fjölmiðlum til að tryggja að Ólafur þessi haldi þessu fé. Og láta eins og þetta sé orrustan um framtíð Íslands, að ef Ólafur fær ekki að halda þessum 85 m.kr. þá munu landi tortímast.

Er að undra þótt almenningur hafi ekki mikla trú á stofnunum samfélagsins, þegar þær láta svona?

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí