Guðmundur í Brim á 285 földum hlut á við starfsfólkið

Ársreikningur Brim fyrir árið 2022 sýnir ágætlega hverslags góðæri stórútgerðin nýtur um þessar mundir. Af tæplega 69 milljarða króna tekjum enduðu 12,3 milljarðar króna sem hreinn hagnaður. Hagnaðurinn slagar upp í að vera álíka og allt launafólk fyrirtækisins fékk í laun á árinu.

Brim gerir upp í evrum og hér er miðað við gengi evrunnar í dag. Ef við reynum að gera okkur grein fyrir hvernig verðmætin sem verða til í rekstrinum á Brim skiptast getum við sagt að fjórir aðilar skipti með sér arðinum úr rekstrinum. Starfsfólkið fær laun, þau sem lána fé til rekstrarins fá vexti og verðbætur, ríkið fær skatta og veiðigjöld og þá situr eftir hreinn hagnaður sem eigendurnir geta ráðstafað. Þeir geta greitt sér hluta út sem arð og látið Brim kaupa eigin bréf eða skilið hluta eftir í Brim og ávaxtað féð í þeim rekstri.

Þegar búið var að borga allan kostnað áður en kom að þessum fjórum aðilum, starfsfólki, lánastofnunum, ríki og eigendum, voru um 31,2 milljarðar króna til skiptanna.

Starfsfólkið fékk um 13,5 milljarða króna. Lánastofnanir tóku um 643 m.kr. fyrir það sem þær lánuðu til rekstrarins. Þetta er ekki mikið, enda er Brim ríkt félag og þarf ekki að sækja mikið lánsfé. Ríkið tók um 4,7 milljarða króna í tekjuskatt, tryggingargjald og veiðigjöld. Og þá sátu eftir 12,3 milljarðar króna sem eigendur Brim geta ráðstafað.

Guðmundur Kristjánsson á meira en helming hlutafjár í Brim með bróður sínum, Hjálm­ari Þór Krist­jáns­syni. Hjálmar á tæplega 6% í Brim en Guðmundur rúm 44% hlutafjár í Brim.

Af þessum 12,3 milljörðum króna sem eigendur fengu út úr rekstrinum í fyrra má því eyrnamerkja Guðmundi um 5,4 milljarða króna. Hann einn fékk því um 40% af því sem allt starfsfólkið fékk. Þeir 13,5 milljarðar sem starfsfólkið fékk í sinn hlut skiptist niður á 713 ársverk. Hver starfsmaður fékk því um 18,9 m.kr. Hlutur Guðmundar var um 285 sinnum stærri.

Nú getur einhver dregið þá ályktun að þessi hlutur Guðmundar ætti fremur heima hjá launafólkinu. Það þarf þó ekki að vera svo því Brim, og þar með Guðmundur, fær aðgengi að auðlindum almennings gegn vægu gjaldi. Stór ástæða fyrir ofvöxnum hlut eigenda Brims úr rekstrinum er því að arðurinn af auðlindinni fer ekki til eigenda hennar, þjóðarinnar, heldur endar hjá eigendum Brim.

Markaðsvirði Brim er um 174 milljarðar króna í kauphöllinni. Hlutafé Guðmundar er því metið á hátt í 77 milljarða króna. Rekstrarhagnaður Brim var í fyrra um 15,5 milljarðar króna. Markaðsvirðið er því hátt, meira en ellefu faldur rekstrarhagnaður félagsins.

Eigið fé félagsins var um 69 milljarðar króna um síðustu áramót. Það óx um 8,2 milljarða króna á árinu 2022. Hlutur Guðmundar í þeim vexti var rúmlega 3,6 milljarðar króna.

Af um 144 milljarða króna eignum voru aflaheimildir eignfærðar upp á um 57 milljarða króna. Brim fékk hins vegar úthlutað rúmlega 46 þúsund þorskígildistonnum. Sé miðað við söluverð á kvóta, t.d. þegar Bergur-Huginn var seldur til Síldarvinnslunnar, má ætla að raunverulegt verðmæti kvótans sé um 132 milljarðar króna. Raunverulegt eigið fé Brim er því nærri 144 milljörðum króna. Og hlutur Guðmundar þá rúmlega 63 milljarðar króna af því.

Guðmundur er meðal allra auðugustu Íslendinganna. Hann hefur auðgast fljótt og einvörðungu á kvóta í sjávarútvegi. Ríkidæmi hans, bæði magnið og hversu fljótt það hefur hrannast upp, er merki um svokallaðan óligarkisma sem hrjáir mörg lönd. Þau sem komast yfir eignir og auðlindir almennings auðgast gríðarlega, bæði með því að draga til sín arðinn af auðlindunum en líka með því að draga til sín arðinn af vinnu launafólksins. Og óligarkarnir nota auð sinn til valda, sem þeir nota fyrst og fremst til að verja auð sinn.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí