„Það er helst Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur fjármálaráðherra, sem hefur glatað mestum trúverðugleika í ríkisfjármálum. Af því að eitt sinn átti hann slíkan trúverðugleika til,“ skrifar Viðskiptablaðið í skoðanadálk sinn Óðinn. „Engu er líkara en að fjármálaráðherrann hafi bara gefist upp fyrir samstarfsflokkunum og mestu eyðsluklónum í eigin flokki og misst allt taumhald á fjármálum ríkisins.“
Viðskiptablaðið bendir á stórkostlega útgjaldaaukningu þessarar ríkisstjórnar og birtir þetta graf:
Þarna sést að útgjöldin hafa aukist um 516 milljarða króna frá 2017 til 2023. Það gera 302 milljarðar króna á núvirði, aukning útgjalda um 31%. Og útgjaldaaukningin er að þriðjungi fjármögnuð með hallarekstri ríkissjóðs, það er alls ekki fjármögnuð.
Seðlabankinn hefur gagnrýnt þennan halla og í raun allir í samfélaginu, hægrimenn jafnt sem vinstra fólk, verkalýðshreyfingin sem Viðskiptaráð. Það er samdóma álit allra að það er fráleit stefna að reka ríkissjóð með halla í bullandi góðæri og hagvexti. Það ýtir undir verðbólgu en veltir líka skattbyrði yfir á komandi ár, lamar ríkissjóð sem ver æ stærri hluta af skattfénu í vaxtagreiðslur og hefur því minna umleikis til að reka grunnkerfi samfélagsins.
Munurinn á hægri og vinstri í þessu máli er að vinstrið vill að ríkissjóður innheimti skatta hjá þeim sem eru aflögufær, hækki fjármagnstekjuskatt, bankaskatt og auðlindagjöld, leggi á auðlegarskatt, sem er eignaskattur á hin allra ríkustu og herði skatteftirlit. Hægrið vill hins vegar lækka skatta ef eitthvað er og loka gatinu á ríkissjóði með heiftarlegum niðurskurði á opinberri þjónustu.
Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu, sem oft er eins og rödd últra hægrisins í Sjálfstæðisflokknum:
„Bjarni lofaði því að vísu á kosningalandsfundi flokksins í haust að koma ríkisfjármálunum á beinu brautina, en fjárlögin og fjármálaáætlunin sem á eftir sigldu báru engan vott um það,“ skrifar blaðið í dálkinn Óðinn. „Hann sagðist líka ætla að gera skattalækkanir sem um munaði að kosningamáli í næstu kosningu. Betra seint en aldrei, goð láti gott á vita og orð eru til alls fyrst, en Óðinn ætlar nú ekki að hengja sig á næsta tré til þess að bíða þess.
Til þess að gefa slík loforð og öðlast stuðning til þess að efna þau þarf nefnilega traust og trúverðugleika. Það verður erfitt, hugsanlega ómögulegt, verk fyrir núverandi forystu hans að endurheimta það traust í þessum efnum á þeim aðeins tveimur árum sem eru til næstu kosninga.“
Myndin er af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins að lofa skattalækkunum og sveltistefnu á landsfundi flokksins síðasta haust.