„Þótt innan verkalýðshreyfingarinnar sé deilt um margt, virðist nokkur samhljómur um að sú kjarasamningalota sem nú stendur yfir hafi skilað launafólki og íslensku samfélagi verri niðurstöðu vegna þess hversu sundruð hreyfingin gekk til kjaraviðræðna,“ skrifar Halla Gunnarsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, á Facebook-vegg sinn þar sem hún tilkynnir framboð sitt til stjórnar VR.
Halla er önnur konan úr Vg sem tilkynnir um framboð, en Elva Hrönn Hjartardóttir kynnti framboð sitt til formanns um helgina. Drífa Snædal réð Höllu til starfa sem framkvæmdastjóra ASÍ eftir að Drífa var kjörinn forseti sambandsins. Og Halla sagði upp þegar Drífa sagði af sér vegna átaka innan ASÍ, ekki síst við Ragnar Þór Ingólfsson formann VR.
„Sameinuð verkalýðshreyfing getur gert kröfur á bæði atvinnurekendur og stjórnvöld til að tryggja raunverulegar kjarabætur og stuðla að jöfnuði fremur en breiðari gjá milli ríkra og fátækra. Með því er ekki sagt að full samstaða geti eða þurfi að nást í einu og öllu. En það er til mikils að vinna að efla samstöðuna þar sem það er hægt,“ skrifar Halla.
Halla leggur fram stefnuskrá framboðs síns. Hún segist ætla að vinna í þágu sameinaðrar og kraftmikillar verkalýðshreyfingar hljóti hún brautargengi í stjórn félagsins.
„Ég mun taka harða afstöðu gegn öllum tilraunum til að veikja stéttarfélög á Íslandi og beita mér fyrir eftirfarandi stefnumálum:
• vinnumarkaði sem styður við launafólk fremur en að vænka hag þeirra sem mest eiga,
• skattkerfisbreytingum sem stuðla að jöfnuði,
• húsnæðisstefnu sem sem gengur út á að viðurkenna húsnæði sem grunnþörf fólks, en ekki gróðamöguleika fyrir fjárfesta
• heilbrigðis- og velferðarmálum þar sem fólk er í fyrirrúmi,“ skrifar Halla á Facebook.
Sjá má færsluna á vegg Höllu: Halla Gunnarsdóttir á Facebook
Meðal annarra frambjóðenda til stjórnar má nefna Gabríel Benjamín, sem var trúnaðarmaður VR á skrifstofu Eflingar, en var sagt upp ásamt öðrum starfsmönnum þar í hópuppsögn.