Markaðir taka vel í verkbann

Það má sjá bæði á gengis- og hlutabréfamarkaði að þeir sem þeim stýra taka vel í verkbann Samtaka atvinnulífsins. Gengi krónurnar og hlutabréf styrkjast, jafnvel þótt fyrirtækin hafi gengist inn á að skaða sjálfan sig með því að reka heim 10% alls vinnuaflsins.

Gengi krónurnar gagnvart evru hefur styrkst. Evran var 154,10 kr. þegar tilkynnt var um ákvörðun stjórnar Samtaka atvinnulífsins um verkbannið. Nú er evran 152,71 kr. Þetta er bati upp á um prósent á fjórum dögum. Kannski fer evran undir 150 kr. ef fyrirtækjaeigendur senda fleira fólk heim.

Úrvalsvísitalan OMXI10 var í 2.704,94 daginn áður en Samtök atvinnulífsins tilkynntu um fyrirætlanir sínar. Vísitalan er nú í 2.731,85, hefur hækkað um rétt tæpt prósent. Kannski hækkar vísitalan enn meir þegar fyrirtækin byrja að loka og efnahagslífið að koðna niður.

Og félögin í kauphöllinni hafa hækkað meira en þetta gefur til kynna. Sjávarútvegsfyrirtækin Brim og Síldarvinnslan eru ekki í OMXI10 en hafa hækkað mikið eftir að Hafrannsóknarstofnun tilkynnti um aukinn loðnukvóta. Talið er að sú aukning geti skapað verðmæti fyrir allt að 10 milljörðum króna. Við þessar fréttir hækkuðu hlutabréfin í þessum tveimur félögum um 11,4 milljarða króna. Verðmæti tveggja fyrirtækja, sem reyndar fá góðan hlut af auknum kvóta, hækkar um meira en sem nemur verðmæti alls kvótans. Og það er endanlegt söluverð, ekki að frádregnum kostnaði.

Þetta sýnir að það er ekki hægt að lesa neitt í viðbrögð svokallaðra markaða við tíðindum dagsins. Þau eru alltaf ýkt og óskiljanleg, eins og viðbrögð manns sem er ekki í jafnvægi. Og hefur aldrei verið í jafnvægi.

En ef við myndum taka mark á mörkuðunum, hvað eru þeir að segja? Líklega að þeir séu rosalega ánægðir með ákvörðun fyrirtækja að loka og stöðva starfsemina. Það gengur illa upp. Og þá verðum við að bæta við að markaðurinn sé ánægður með markmið SA að brjóta á bak aftur kjarabaráttu láglaunafólks. Og að markaðurinn svokallaði trúi að það takist. Og að það sé fjármagnseigendum í hag að það takist. Hann er skrítin skepna þessi markaður.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí