Hlutabréf í svissneska bankanum Credit Suisse féll í morgun eins og bréf í svo til öllum bönkum veraldar í kjölfar falls á bréfum SVB eða Silicon Valley Bank. SVB hefur sérhæft sig í lánum til tæknifyrirtækja í Silicon Valley. Bankinn reyndi að bæta versnandi stöðu með hlutafjárútboði en uppskar verðfall á hlutabréfum upp á um 66%. Það er merkilegt við lækkun á hlutum í Credit Suisse er að sá banki hefur líka fallið í verði um 2/3, en á lengri tíma, undanfarna tólf mánuði.
Ástæða verðlækkunar nú er að fjárfestar eru að flýja banka um allan heim. Það voru ekki bara bankar í veikri stöðu eins og Credit Suisse sem féllu í verði. UBS, annar svissneskur banki lækkaði um 4,7% í morgun, Deutsche Bank lækkaði um 7,9% og HSBC um 4,5%.
Nærrænir bankar hafa lækkað líka. Swedbank lækkaði um 5,7% í morgun, Danske bank um 3,0%, Jyske bank um 3,7% og Nordea um 4,0%. Við opnun á Íslandi féll Arion um 3,7% og Íslandsbanki um 3,0%.
Ástæða fjárhagsvandræða Silicon Valley Bank var hálfgerð brunaútsala á 3 þúsund milljarða eignum sem skapað höfðu gríðarlegt tap, upp á um 260 milljarða króna. Þetta gat vildi bankinn fylla með nýju hlutafé en við það missti markaðurinn alla trú á bankanum og verðmæti hans féll. Ástæða þess að verð í bönkum um allan heim lækka í kjölfarið er að grunur um að fleiri bankar eigi í sambærilegum vanda, séu með mikið af eignum sem skila lágri ávöxtun á sama tíma og vextir hækka hratt.