Björn Birgisson, samfélagsrýnir frá Grindavík, greinir frá því í pistli sem hann birtir á Facebook að hann hafi ítrekað sent lækni sínum erindi. Eina svarið sem honum hefur borist frá lækninum hljóðar svo: „Er með síma og mail tíma á miðvikudögum, fer í gegnum öll mál þá, þú skilur vonandi af hverju þetta er svona!“ Björn segir það galið fyrirkomulag að geta bara fengið svör frá lækni á miðvikudegi.
Hér fyrir neðan má lesa pistil Björns í heild sinni.
Ef kviknar í húsi er strax farið í að slökkva eldinn til að bjarga því sem bjargað verður.
Ef bátur sendir út neyðarkall er strax brugðist við.
Ef maður þarf góð ráð frá lækni fást þau jafnvel seint, illa eða alls ekki!
Hér er sýnishorn af erindi mínu til læknis:
Sæll meistari!
Er til eitthvað bólgueyðandi sem hjartaþræddir menn mega nota?
Minnir að þú hafir lagt bann við Ibúfeninu.
Er með stokkbólgið vinstra hné, það gengur ekki því nú styttist í golfið!
Ekkert svar.
Viku síðar.
Sæll!
Þetta versnar með hverjum degi sem þú svarar mér ekki, get orðið illa gengið.
Loksins svar.
„Er með síma og mail tíma á miðvikudögum, fer í gegnum öll mál þá, þú skilur vonandi af hverju þetta er svona!“
Nei, varla.
Er fæddur áður en tölvuöldin hélt innreið sína.
Áður en allt fór eftir klukku, líka neyð, veikindi og vandræði fólks.
Sorry!
Ljótt af mér að vera að trufla þig svona – og það ekki á miðvikudegi!
**********
Þetta minnir mig á sögu sem Haraldur heitinn Sigurðsson læknir á Fáskrúðsfirði sagði mér á síðari hluta fyrri aldar.
Hann starfaði um tíma sem læknir á Grænlandi.
Þar voru samgöngur slæmar og vegalengdir miklar.
Gjarnan farið á hundasleðum á milli staða.
Þarna fannst Haraldi gott að vera.
Hvers vegna?
„Þegar ég loksins komst á leiðarenda var sjúklingurinn annað hvort dauður eða honum var að mestu batnað.
Mér fannst gaman að ferðast svona!“
Grunar að Haraldur heitinn hafi ekki alltaf legið yfir klukkunni og dagatalinu!