Þann 20. mars sl. tilkynnti Reykjavíkurborg að hún hafi ákveðið að falla frá gjaldtöku í bílastæðahúsum á handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða. Í fjölda ára hefur borgin rukkað hreyfihamlaða þrátt fyrir álit borgarlögmanns um að slíkt sé kolólöglegt.
Öryrkjabandalag Íslands hafði bent lengi á að gjaldheimta á hreyfihömluðum í bílastæðahúsum stæðist ekki lög. Slíkt kæmi skýrt fram í 87. grein umferðarlaga en í henni stendur að handhafa stæðiskorts sé heimilt að leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði án sérstakrar greiðslu.
Orðalagið í 87. grein er kýrskýrt. Þrátt fyrir það gengust borgaryfirvöld ekki við henni og héldu áfram að rukka hreyfihamlað fólk. Í minnisblaði borgarlögmanns frá því í desember 2021 kom einnig fram að gjaldtakan væri óheimil. Nú rúmum tveimur árum síðan hefur Reykjavík loks gefið eftir.
Ekki er ljóst hvað gerist næst. Fjölmargt fólk hefur verið rukkað ólöglega um stæðisgjald og ætti þá væntanlega að eiga rétt á endurgreiðslu. Engar upplýsingar um að slíkt sé á döfinni hafa þó komið fram hjá borginni. Líklegt er að nú hefjist önnur barátta hjá öryrkjum til að sækja rétt sinn hvað það varðar.