Frosti reynir að fella Eddu
Mikil og hávær umræða snerist um Frosta Logason og Eddu Falak í liðinni viku en Frosti skrifaði opið bréf til Heimildarinnar þar sem hann upplýsti um að Edda hafi aldrei verið starfsmaður í ákveðnum virtum banka í Kaupmannahöfn né í lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk eins og hún hélt fram í viðtali árið 2021. Edda sagðist þá hafa orðið fyrir kynbundnu áreiti af samstarfsfólki bankans og svo lyfjafyrirtækisins eftir að hafa birt af sér nærfata og bikínímyndir á samfélagsmiðlum. Þá barði hún í borðið með yfirlýsingu á Instagram og í kjölfarið hóf hún átakið „Ég trúi” sem miðaði að því að hvetja fólk til að viðurkenna og trúa konum sem stigu fram og sögðu frá kynferðisofbeldi.
Frosti virðist ekki hafa tekið það með inn í myndina að hugsanlega hafi Edda logið til um nafn vinnustaða sinna til að ljóstra ekki upp um persónur og leikendur eða af öðrum persónulegum ástæðum. Það er til dæmis vel þekkt að blaðamenn noti önnur nöfn á fólki og stöðum þegar verið er að fjalla um viðkvæm mál. Engu að síður hefur Edda beðist afsökunar á þessum missögnum en í yfirlýsingu frá Heimildinni kemur fram að hún hafi ekki verið ráðin á þeim forsendum að hafa unnið í banka í Danmörku á námsárunum eða ekki. Hún var ráðin út frá þeirri staðreynd að hún gaf þolendum rödd og rými til að deila sinni reynslu í málum sem hafa samfélagslegt mikilvægi og sýna fram á bresti í þeim kerfum sem ættu að verja viðkomandi.Frosti uppskar því ekki laun erfiðis síns.
Konur á síðasta söludegi um fertugt
Erla Sólveig Kristjánsdóttir prófessor við viðskiptafræðideild Háskólans var í viðtali á Morgunvaktinni á RUV þar sem hún fjallaði um fyrirhugaða rannsókn sína á kynbundnum aldursfordómum á vinnumarkaði landsins. Hún segir erlendar rannsóknir sýna að konur upplifi þrefalda ógn, (triple jeopardy), eða margþætta mismunun milli kyns, aldurs og útlits og strax upp úr fertugu fara konur að finna fyrir því að vera stimplaðar gamlar.
Erla bendir á að fólk lifi lengur í dag og sé heilbrigðara, hafi auk þess metnað til að vinna lengur og því skjóti það skökku við að fólk upplifi aldursfordóma og erfiðleika við að komast í gegnum ráðningasíuna. „Við erum að upplifa spekisóun, erum að sóa þekkingu sem við höfum við bæjardyrnar.“ segir Erla. Hún segir margar konur hefja nám að nýju eftir barneignir og útskrifist þá jafnvel um fimmtug en gangi ill að fá störf.
Í rannsókninni mun Erla taka viðtöl við 12 konur 50 ára og eldri og byrja á konum með háskólamenntun, og konur í stjórnunarstöðum. Þá hefur hún átt í viðræðum við finnska og kanadíska fræðimenn sem með það að markmiði að gera samanburðarrannsókn. „Mig langar að gera mjög mikið úr þessu” segir Erla og bætir við „Ég ætla að byrja á að fókusa á Ísland og íslenskan vinnumarkað því ég vil vita hvað er í gangi hér. Hvernig þær eru að upplifa þetta og í hverju þetta felst svo við getum unnið í að leiðraétta þetta, því við þurfum að gera það.“
Gerviklám
Æ algengara er að konur verði fyrir svokölluðu gerviklámi. Gerviklám fer þannig fram að mynd af konu, jafnan þekkt andlit er notað sem prófíll inn á t.d. Instagram reikning þar sem karlmenn eru tældir til að greiða fyrir klám aðgang sem á að beina þeim á aðrar síður eins og td. Only fans. Bak við prófílinn á instagram er þó ekkert. Eftir sem áður hefur mynd konunnar verið notuð til að auglýsa og reyna að tæla inn karla. Hún hefur svo í kjölfarið enga leið til að kæra nokkurn mann fyrir sjálfsmynda þjófnaðinn og er jafnan í sárum eftir svo ruddalega aðför að sjálfsmyndinni og niðurlæginguna. Í það minnsta þrjár íslenskar konur urðu fyrir þessu fyrir skemmstu síðan og hafa þær engin tól og tæki til að sækja rétt sinn eftir þetta brot á friðhelgi einkalífs þeirra.