Forstjórar hringja inn sósíalískan baráttudag kvenna

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna, 8. mars, hófst á Íslandi með því að forstjórar í nokkrum félögum í kauphöllinni hringdu inn bjöllu, sem boðar opnun fyrir kauphallarviðskipti. Þetta kann mörgum að finnast skrítið, enda liggja rætur þessa baráttudags í sósíalískri verkalýðsbaráttu kvenna. En svo er síðkapítalisminn, merkingar verða marklausar.

Dagsetningin, 8. mars, var valin til að minnast verkfalls fátækra verkakvenna í vefnaðar- og fataverksmiðjum New York-borgar árið 1857. Konurnar vildu sómasamleg laun, skaplegan vinnutíma og mannsæmandi vinnuaðstæður. Snemma á síðustu öld völdu sósíalískar konur þennan dag til að krefjast jafnréttis, réttlætis og jöfnuðar, en ekki síst kosningaréttar. Sósíalistaflokkur Bandaríkjanna stóð fyrir aðgerðum á þessum degi og það sama gerðu sósíalistar í Evrópu.

Þekkt veggspjald frá Þýskalandi 1914 þar sem konur er hvattar til baráttu á 8. mars. Þetta veggspjald var bannað, enda féll það ekki að smekk og hugmyndum valdastéttarinnar.

Eftir byltingu í Rússlandi fengu konur kosningarétt þar í landi og þá var 8. mars gerður að frídegi, baráttudegi kvenna. Og það sama gerðist í örðum löndum þar sem kommúnistar komust til valda. Og allt fram að sjöunda áratugnum voru það fyrst og fremst kommúnistar og sósíalistar héldu þessum baráttudegi á lofti.

Hér heima voru það kommúnískar konur sem fluttu daginn til landsins. Vinstrisinnaðar konur og verkalýðssinnar héldu honum á lofti. Frá sjötta áratugnum stóðu Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna fyrir dagskrá á þessum degi.

Á sjöunda áratugnum varð þessi dagur að almennari baráttudegi kvenna, einkum í Bandaríkjunum. Hann færðist frá vinstri og varð að baráttudegi breiðrar kvennahreyfingar. Sú þróun kom á endanum til Íslands og í dag standa ýmiss félög fyrir dagskrá í tilefni dagsins: Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, Stígamót, BSRB og fleiri. Og meira að segja kauphöllin.

Þessar konur hringdu inn viðskiptin í kauphöllinni í morgun: Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech, Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festi, Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova.

Kvennabaráttan hefur því ferðast langt á þessum degi frá því að fátækar verkakonur og síðar sósíalískar notuðu hann til að minna ekki aðeins á jafnrétti á toppnum og meðal valdastéttarinnar heldur um allt samfélagið, á jöfnuð og réttlæti sem forsendu þess að jafnrétti kynjanna gæti dafnað.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí