Samkvæmt tilkynningu Hagstofunnar var hallinn á ríkissjóði 161,9 milljarðar króna í fyrra eða 4,3% af landsframleiðslu. Skuldir ríkissjóðs hækkuðu um 170 milljarða króna í fyrra og eru nú orðnar 3.313 milljarðar króna. Vaxtagjöld ríkissjóðs voru í fyrra 167,3 milljarðar króna, á við tvo nýja Landspítala.
Ríkissjóður Íslands særir sig meira af að skulda mikið en ríkissjóðir nágrannalandanna þar sem hann greiðir hærri vexti. Vaxtagjöld ríkissjóð í fyrra voru um 5% af heildarskuldunum. Til samanburðar eru vextir á skuldabréfum ítalska ríkisins helmingi lægri þrátt fyrir að ítalska ríkið skuldi 135% af landsframleiðslu en íslenska ríkið 88%.
Ef við notum þennan mælikvarða má segja að staða ríkissjóðs Íslands sé jafn þung rekstrarlega í samanburði við lánskjör Ítalíu og ef skuldin væri 176% af landsframleiðslu en ekki 88%. Vaxtabyrðin er verri en á Ítalíu þótt íslenski ríkissjóðurinn skuldi umtalsvert minna. Það hefur því ekkert gildi að bera skuldir íslenska ríkissjóðsins við önnur lönd. Það er vaxtabyrðin sem skiptir máli.
Ríkisskuldir sem hafa hrannast upp á Íslandi á undanförnum árum. Og kostnaðurinn við að fóðra þessar skuldir er þung fyrir ríkissjóð. Og þar með íslenskan almenning. Sem horfir á verðmæti tveggja nýrra Landspítala hverfa í hundskjaft árlega, bara til að fóðra skuldir vegna einhvers sem fyrir löngu er búið að eyða.
Á Sprengisandi á sunnudaginn sagði Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra að kominn væri tími til að gera átak til að bæta lánshæfnismat Íslands. Kannski vekur það athygli einhverra að sú vinna sé ekki í gangi alla daga, en viðskiptaráðherrann telur alla vega kominn tíma á að reyna. Ef lækka má vaxtabyrði ríkissjóðs um 1% þá finnast 33,5 milljarðar króna. Sem nota má í eitthvað annað að vaxtagreiðslur. Til dæmis í að endurbyggja hér feysknar stoðir velferðarríkisins.
Skuldasöfnun síðustu ára má rekja til tekjufalls í cóvid-faraldrinum og aukinna útgjalda vegna hans. En áður en cóvid skall á var ríkissjóður rekinn með halla sem nam 1,5% af landsframleiðslu. Sá halli er höfundarverk ríkisstjórnar sem vildi auka útgjöld en ekki tekjur, treysti á að lág skattheimta af fjármagns- og fyrirtækjaeigendum myndi skila ríkissjóði auknum tekjum. Sem gekk auðvitað ekki eftir.
Áhrif cóvid á ríkissjóð hurfu að mestu á síðasta ári. Á síðasta ársfjórðungi má segja að þau hafi verið horfin með öllu. Samt var ríkissjóður þá rekinn með 45 milljarða króna halla, sem gerir 4,7% af landsframleiðslu. Heimagerði halli ríkisstjórnarinnar hefur því þrefaldast frá því fyrir cóvid, úr 1,5% af landsframleiðslu upp í 4,7%.
Þetta er háskaleg staða. Á þremur mánuðum bættust 45 milljarðar króna ofan á uppsafnaðan halla. Til að fóðra hallann mun ríkið þurfa að borga 2.250 m.kr. árlega. Og þetta er aðeins halli þriggja mánaða. Hvert ár er með tólf mánuði. Og meðan hallinn heldur áfram hleðst linnulaust ofan á vaxtakostnaðinn. Sem í dag er orðinn 4,5% af landsframleiðslu. Það er þriðjungur af því sem varið er til menntamála.
Ríkisstjórnin er nú að semja sín á milli um nýja fjármálaáætlun. Þar hefur verið boðaður niðurskurður á opinberri þjónustu, þótt ráðherrarnir vilji nefna þann niðurskurð frekar aðhald eða öðrum skreytiorðum. En það kemur út á eitt, þeir tala um að minnka hallann með því að draga úr útgjöldum og þar með þjónustu. Tal um að hægt sé að gera það sama og jafnvel meira fyrir minna hefur aldrei staðist. Auðvitað má bæta rekstur og það ætti að vera markmið alla daga, ekki átak til að stoppa í krónískan hallarekstur.
En ráðherrarnir hafa ekki talað um að auka tekjur til að stoppa upp í hallann, ekki umfram það sem aukin verðbólga mun færa ríkissjóði. Landsfundur Vg samþykkti ályktanir um nauðsyn skattahækkana á fjármagns- og fyrirtækjaeigendur en slíkar tillögur hafa hingað til strandað á Sjálfstæðisflokknum.
Verkalýðshreyfingin hefur gert kröfur um hækkun veiðigjalda, auðlegðarskatt, hækkun fjármagnstekjuskatts og hækkun tekjuskatts í efstu þrepum. Það er auðvitað gert til að vinna gegn auknum ójöfnuðu og óréttlæti skattkerfisins, en tekjuhæsta fólkið á Íslandi borgar viðlíka hlutfall launa sinna í skatt og fólk með lægri miðlungstekjur. En krafan er líka sett fram vegna þess að það er mikilvægt fyrir almenning að ríkissjóður sé ekki rekinn með halla í góðæri og verðbólgu. Það safnar upp skuldum og vaxtagreiðslur af þeim munu skerða velferðarkerfið til lengri tíma. Og velferðarkerfið er mikilvæg stoð undir góð lífskjör almennings.