Íslandsbanki mokar fé til hluthafa og vill sameinast Kviku

Samþykkt var á aðalfundi Íslandsbanka í gær að greiða hluthöfum 12,3 milljarða króna í arð og láta bankann kaupa allt að 10% af eigin bréfum, sem er önnur leið til að koma eignum bankans til hluthafa. Fullnýtt gæti sú ráðstöfun fært hluthöfum 25,6 milljarða króna. Samtals samþykkti fundurinn því að færa hluthöfum um tæplega 38 milljarða króna.

Þetta er ógn há upphæð, fjárhæð sem bankinn sækir til heimila og fyrirtækja og færir hluthöfum sínum. Hægt væri að byggja hálfan nýjan Landspítala fyrir þess upphæð. Ef við brjótum þetta niður á hvern landsmann má segja að hver fjögurra manna fjölskylda þurfi að greiða um 400 þús. kr. í skatt til hluthafa Íslandsbanka í gegnum vexti og þjónustugjöld.

Finnur Árnason sem kjörinn var formaður bankaráðs sagði á fundinum að sameining Íslandsbanka og Kviku féllu að áætlunum um stækkun bankans. Miðað við markaðsverð og eigið fé er Kvika um 27% af samanlögðum bönkunum tveimur. Eftir sameiningu má gera ráð fyrir að hlutur ríkissjóðs verði því nærri 31%. Ríkið er þá komið niður fyrir þriðjung og getur því ekki stöðvað lagabreytingar né neinar meiriháttar breytingar á sameinuðum banka.

Til að sameiningu geti orðið mun Íslandsbanki þurfa að selja fjármögnunarfyrirtækið Ergo sem er minna en sambærilegt fyrirtæki Kviku, Lykill. Og losa sig við söluumboð þýska líftryggingafélagsins Allianz þar sem Kvika á stærra tryggingarfélag TM. Þetta kann að stækka hlut Kviku við sameininguna, að Íslandsbanki minnki sig með því að greiða hluthöfum andvirði þeirra eigna sem bankinn losar sig við.

Innfellda myndin er af Finni Árnasyni formanni bankaráðs.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí