Líf sagði að klúðrið sem hefur kostað sex milljarða væri „fullkomið“

„Reykjavíkurborg hefur alltaf sagt það að úrgangsstraumarnir sem við tökum þá helst við heimilin þurfi að vera hreinir og þar með þurfum við að flokka lífrænt þar. Hins vegar er Gaja það fullkomin að hún getur tekið hvort tveggja og við í sveitarfélögunum og í Sorpu erum að tala um hvernig við samræmum flokkun hér svo að straumarnir, úrgangsstraumarnir, séu sem hreinastir.“

Þetta sagði Líf Magneudóttir, oddviti VG í Reykjavík, árið 2020 en þá var hún varaformaður stjórnar Sorpu. Orðin féllu í kappræðum við Eyþór Arnalds, þáverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, í þættinum 21 á Hringbraut, en DV tók saman efni þáttarins.

Þessi GAJA sem Líf vísar til er flokkunarstöð, sem nú hefur komið í ljós að var allsherjar klúður. Á dögunum greindi Fréttablaðið frá því að stjórn Sorpu hafi ákveðið að loka flokkunarstöðinni fullkomnu. Heildarkostnaðurinn við GAJA er talinn vera tæplega sex milljarðar króna. Stöðin átti að sjá gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi fyrir lífrænum úrgangi til moltugerða. Afurðin reyndist hins vegar ónothæf.

Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu, viðurkennir fúslega í samtali við Fréttablaðið að mistök hafi verið gerð. Að hans sögn hefði mátt spara talsverðan pening með því að einfaldlega hefja söfnun á lífrænum úrgangi, líkt og þekkist víða.

„Ákvörðunin er óskiljanleg því Matvælastofnun benti strax á að molta sem unnin er úr blandaðri tunnu geti aldrei orðið söluhæf. Af hverju fyrri stjórn ákvað að fara þessa leið verður að teljast mjög sérstakt,“ segir Jón Viggó.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí