Í grein í tímaritinu Nature kemur fram að lífslíkur í heiminum öllum lækkuðu í cóvid-faraldrinum, en mismikið milli landa. Könnunin nær ekki til ársins í fyrra, þegar mun fleiri létust á Íslandi vegna cóvid en árin á undan og þegar mikið var um umframdauðsföll. Eftir sem sem áður sýnir greinin að lífslíkur skruppu saman á Íslandi, frá 2019 til 2021, um 2,1 mánuð. Þetta er nokkuð meira en á hinum Norðurlöndunum.
Það má sjá hvaða áhrif cóvid hafði á lífslíkur í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD á þessu grafi sem fylgdi greininni:

Rauðu línurnar sýnaafturför, en þær dökk-gráu framför.
Þarna sést að Norðurlöndin Noregur, Svíþjóð, Finland og Danmörk koma best út. Í þessum löndum drógust lífslíkurnar lítið sem ekkert saman, jukust meira að segja í Noregi.
En Ísland er ekki í þessum hópi, heldur ofar á töflunni með afturför í lífslíkum mitt á milli stórþjóðanna Frakka og Þjóðverja.
Í viðtali við Rauða borðið í síðustu viku benti Haukur Már Haraldsson rithöfundur á áhrif cóvid á lífslíkur í heiminum. Hann vísaði til grafs sem sýnir þessa þróun, en sem ekki var birt í þættinum. En hér er það graf:

Þarna sést að lífslíkur falla úr 72,8 árum 2019 í 71,0 á árinu 2021. Og það má reikna með að lífslíkur hafi fallið enn neðar á árinu 2022. Þarna hverfa tæplega 22 mánuðir. Afturförin er eins og árangurinn frá 2012 hafi verið klipptur burt.
Þar sem mannkynið er um 8 milljarðar þá er þetta bakslag gríðarstórt í lífi talið. 8 milljarðar sinnum 22 mánuðir er líf upp á 144 milljón aldir.
Ef við skoðum áhrifin eftir efnahag ríkjanna þá lítur grafið svona út:

Þarna sést að cóvid lækkaði lífslíkur alls staðar, eilítið mismikið en þó furðu jafnt.
Það er ekkert í nýliðinni sögu sem er líkt og cóvid að þessu leyti. Hungursneyðin í Kína eftir hið mislukkaða stóra stökk Maós náðu að keyra niður lífslíkur mannkyns en það eru í raun engir aðrir viðburðir sem komast nærri cóvid að þessu leyti. Cóvid er risastór heilsuógn, sem segja má að við tölum um að furðulegri léttúð.
Þetta var inntakið í samtalinu við Hauk Má Helgason, sem sjá má og heyra í spilarnum hér að neðan. Hann kallaði eftir aðgerðum líkum þeim sem gripið var til þegar í ljós kom að orsök kóleru var mengað drykkjarvatn og vatnsveitur borga og landa voru endurbyggðar og gripið til annarra aðgerða. Kannski er kominn tími á átak í loftgæðum, eins og þá var gert í vatnsgæðum.
Þórólfur Guðnason smiðsjúkdómalæknir kemur að Rauða borðinu í kvöld og ræðir um cóvid, umframdauðsföll og áhrif faraldursins á lífslíkur okkar.