Ríflega tvö hundruð heimili hafa verið rýmd í Neskaupstað eftir að þrjú snjóflóð féllu þar í morgun. Enginn alvarleg slys urðu á fólki en ljóst er að flóðin hafa valdið talsverðu tjóni.
Þrír snjóflóðavarnargarðar verja bæinn en sá fjórði er enn bara á teikniborðinu. Sá óbyggði átti að verja akkúrat það svæði þar sem flóðið féll á bæinn.
Ekki vantar fjármagnið til að byggja snjóflóðavarnir því Ofanflóðasjóður er digur sjóður. Samkvæmt nýjasta ársreikningi sjóðsins þá er hrein eign sjóðsins tæplega 14 milljarðar króna. Það fé er þó ekki geymt inn á bók heldur er þannig tilkomið að innheimt er í sjóðinn 0,3% af brunabótamati íbúðarhúsnæðis en í gegnum árin hefur aðeins hluti þeirra fjárhæða verið varið í snjóflóðavarnir.
Hvernig varð þessi sjóður til? Helgi Þór Ingason, prófessor við HR, skrifaði um sjóðinn fyrir nokkrum árum. Árið 2020 lýsti Helgi Þór sjóðnum svo:
„Ofanflóðasjóður tók einmitt til starfa 1997 með gildistöku sérstakra laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Þá var stefnt á að gera verulegt átak í að verja byggðir landsins fyrir snjóflóðum. Áætlun um þetta var sett fram, hana skyldi fjármagna með framlögum úr Ofanflóðasjóði og henni skyldi ljúka árið 2010. Þetta var metnaðarfull áætlun, um hana ríkti almenn samstaða og ég hygg að almenningur hafi verið sáttur við þá skattheimtu sem sett var á til að afla tekna til þessara framkvæmda. Tekjur Ofanflóðasjóðs eru sumsé skattur sem er innheimtur af fasteignaeigendum sem sérstakt 0,3% gjald á brunatryggingar húseigna.“
En þetta fé rennur ekki í snjóflóðavarnir. Árið 2019 fullyrti stjórnarmaður í Ofanflóðasjóð að ríkið væri að blekkja húseigendur. Þá hafði einungis þriðjungur peninganna skilað sér til framkvæmda.
„Tekjurnar eru árlega um þrír milljarðar en það er aðeins í kringum milljarður sem er notaður í snjóflóðavarnir árlega núna, miðað við það hvernig fjárlög eru ákveðin. Ég veit ekkert hvar þessir peningar eru en það er einungis einn þriðji teknanna á hverju ári núna sem er ákveðið samkvæmt fjárlögum að fari í snjóflóðavarnir og það finnst mér ekki hægt,“ sagði Halldór Halldórsson þá í samtali við RÚV.
Stuttu síðar, eða í ársbyrjun 2020, ræddi Sigurður Ingi Jóhannsson, nú innviðaráðherra en þá samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, þetta í Sprengisandi á Bylgjunni. Þá sagði Sigurður Ingi: „Þeir eru bara hjá ríkissjóði og hafa þá farið í einhverja aðra uppbyggingu á liðnum árum í staðinn.“
Síðan þá hefur heldur meiru verið varið í snjóflóðavarnir. Í ár verða innheimtir meira en 4 milljarðar króna í sjóðinn. Það er um milljarði meira en fór í varnir á árinu 2021 og um 2,5 milljörðum meira en fór til uppbyggingar á árinu 2020. Ofanflóðasjóður hefur ekki birt reikninga fyrir árið 2022.