„Það væri ódýrast fyrir hið svokallaða heilbrigðiskerfi að langtímasjúklingar andist sem fyrst.“ Svo lýkur nafnlausri frásögn í nýstofnuðum Facebook-hópi Rétturinn til að lifa. Markmið hópsins er að greina frá sögum af mannréttindabrotum í íslenska heilbrigðiskerfinu. Ljóst er að slíkar sögur eru mýmargar ef marka má virkni hópsins á örstuttum tíma.
Konan nokkur kýs að deila sögu sinni nafnlaust innan hópsins. Hún skrifar: „Ég er orðin algjörlega örmagna og get varla skrifað. Hún var í dag í þriðja sinn á bráðavaktinni á einni viku og er send æ lasnari, máttlausari og með stöðugan svima heim aftur. Í dag var mér gefinn vökvi í æð því ég er orðin alltof þurr því ég nærist varla á neinu. Eftir eina blóðprufu og vökvagjöf var mér sagt að fara heim. Ég fengi svo símtal vonandi á morgun um hvernig blóðprufan hafi komið út. Send heim, get varla gengið og ég bý ein by the way.“
Hún segir að klúður lækna hafi líklega stytt líf hennar um nokkur ár. „Þeir hafa ekki enn fundið út af hverju ég er alltaf veik og með hita. En nú er komið í ljós að einn vangreindur sjúkdómur hefur orsakað annan sjúkdóm sem er mjög alvarlegur og ólæknandi og mun sennilega stytta líf mitt um nokkur ár. Geggjað heilbrigðiskerfi,“ segir konan.
Hún segist hafa verið rúmliggjandi í fjóra mánuði. „Það eitt og sér er lífshættulegt. Ef hægt verður að komast að því hvað veldur mun ég þurfa á læknishjálp að halda (sem af fenginni reynslu geri ég mér litlar vonir um). Eftir margra mánaða rúmlegu þyrfti ég nauðsynlega á endurhæfingu að halda, þar gæti Heilsustofnun í Hveragerði verið mjög góður kostur,“ segir konan.
Hún segist að lokum ekki hafa efni á því að fá viðeigandi þjónustu. „En dvölin þar kostar mörg hundruð þúsund sem öryrki hefur engan veginn efni á. Hugsanlega Reykjalundur en þar er margra mánaða eða meira en árs biðlisti. Það væri ódýrast fyrir hið svokallaða heilbrigðiskerfi að langtímasjúklingar andist sem fyrst.“
Hér má finna fyrrnefndan hóp, Rétturinn til að lifa, og lesa fleiri sögur af hrörnandi heilbrigðiskerfi.