Borgarráð, utan Sósíalista, samþykkti uppfærslu á öryggismyndavélakerfi í miðbæ Reykjavíkur. Samkvæmt heimildum var samþykki Pírata veitt vegna misskilnings sem fulltrúar flokksins hyggjast leiðrétta á fundi borgarstjórnar næstkomandi þriðjudag.
Píratar í borgarráði töldu að um uppfærslu eldra samkomulags frá 2017 væri að ræða, meðal annars vegna fjölda nýbygginga í miðbænum. Líkt og kom fram í rökstuðningi Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar, aðstoðarlögreglustjóra gerir lögregla þó ráð fyrir að ganga töluvert lengra en eldra samkomulag gerir ráð fyrir. Ásgeir segir þar nauðsynlegt sé að bæta við sérstökum myndavélum sem lesa bílnúmer og einnig þeim sem vakta sérstaklega mótmælendur á Austurvelli.
Sósíalistar lögðust gegn samkomulaginu en Trausti Breiðfjörð Magnússon, fulltrúi Sósíalistaflokksins lét að því tilefni fylgja eftirfarandi bókun: „Sósíalistar geta ekki samþykkt vöktun á almenningi sem nýtir stjórnarskrárvarinn rétt sinn til mótmæla. Það er óhugsandi að samþykkja aukið myndavélaeftirlit í þessum tilgangi.“