Seðlabanki Evrópu lætur hvorki titring á fjármálamörkuðum né ákall fjárfesta hafa áhrif á stefnu um hækkun stýrivaxta. Stýrivextir Evrópska seðlabankans hækkuðu um hálft prósentustig eða 50 punkta í dag og eru vextir bankans þá á bilinu 2,5 til 3 prósent.
Bankinn hefur aldrei hækkað stýrivexti jafnört og að undanförnu en á sama tíma er vaxandi ólga á fjármálamörkuðum, meðal annars eftir fall Silicon Valley Bank í bandaríkjunum og erfiðleika Credit Suisse í Sviss.
Fjárfestar kölluðu eftir því í vikunni að beðið yrði með stýrivaxtahækkanir til að valda ekki meiri titringi á mörkuðum en líkt og áður sagði hefur seðlabanki Evrópu virt þær óskir að vettugi. Samkvæmt tilkynningu bankans eru stýrivaxtahækkanir þessar tilraun til að halda aftur af verðbólgu í álfunni, en gert ráð fyrir að hún verði áfram umtalsverð næstu árin.