Sigmari ofbauð framganga Birgis á fundi

“Þrískipting ríkisvaldsins í löggjafavald, framkvæmdavald og dómsvald er eitthvað sem þingmenn eiga að hafa í heiðri,“ sagði Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar og átti þar við Birgi Þórarinsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins eftir opinn nefndarfund Alþingis í dag.

Fyrir svörum sat Þorsteinn Gunnarsson, formaður sjálfstæðrar kærunefndar útlendingamála á opnum nefndarfundi Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í hádeginu og ku hafa verið settur í “þriðju gráðu yfirheyrslu“ af þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Frá þessu greinir Sigmar á Facebook síðu sinni nú fyrir skömmu. Sigmar segir spurningar Birgis hafa snúist um útgjöld sem, eðli málsins samkvæmt, hljótast af málsmeðferðum og úrskurðum nefndarinnar í útlendingamálum.

“[Birgi] líkar ekki að kærunefndin skuli styðjast við landslög og flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna í úrskurðum sínum,“ segir Sigmar og bendir á að ábyrgðin liggi hjá löggjafanum en ekki framkvæmdarvaldinu. “Rétt eins og lögin og reglurnar hafi ekkert vægi og að nefndin eigi að líta fram hjá þeim. Þetta er með miklum ólíkindum og með sama áframhaldi styttist í að dómarar landsins fái þriðju gráðu yfirheyrslu um dóma sína frá löggjafavaldinu.“

Ástæða fundarins var afgreiðsla á hinu margrómaða útlendingafrumvarpi sem kosið verður um í dag á þinginu. Sigmar segir Birgi hafa gengið svo langt að “heimta“ að nefndin tæki frekar tillit til annara landa en ekki gildandi laga og alþjóðaskuldbindinga. „Við setjum lögin sem kærunefndin fer eftir og hún á að úrskurða eftir þeim lögum en ekki eftir kröfu þingmanna eða því hve dýrt það kunni að vera að fara eftir lögunum. Með öðrum orðum, ég geri ekki athugasemdir við að Birgir spyrji, mér finnst hinsvegar að hann eigi að spyrja rétta aðila. „

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí