Slökkt hefur verið á öðrum ofni kísilvers PCC á Bakka við Húsavík. Ástæðan er að vörur fyrirtækisins seljast ekki heldur hlaðast upp á lager. Verið var rekið með miklu tapi á seinni hluta síðasta árs.
Þetta kemur fram í Viðskiptablaði dagsins. Þar kemur fram að eftirspurn eftir kísil hafi verið lítil á síðustu mánuðum ársins á meðan mikil samkeppni sé frá bæði Kína og Brasilíu. Á sama tíma hafi framleiðslukostnaður hækkað umtalsvert í Evrópu vegna hærra raforku- og hrávöruverðs. Þannig hafi kísilverð víða í Evrópu verið undir framleiðslukostnaði.
Í svari félagsins til Viðskiptablaðsins kemur fram að raforkuverðið sem PCC greiði á Bakka sé lægra en hjá mörgum verksmiðjum í Evrópu. Þá séu horfurnar á mörkuðum að batna. Verð á kolum og öðrum hrávörum sem nýttar eru til framleiðslunnar sé tekið að lækka og vísbendingar um að eftirspurn í Kína eftir kísil sé að aukast á ný sem ætti að leiða af sér hærra vöruverð.
Síðasta sumar breytti félagið Bakkastakkur, sem er í eigu lífeyrissjóða og Íslandsbanka, 12 milljarða króna skuldabréfum í hlutabréf og á félagið nú 35% í félaginu á móti þýska móðurfélaginu.