Margt hefur breyst frá því að Fréttablaðið var fyrst gefið út fyrir 22 árum. Fyrr í dag var tilkynnt að útgáfu blaðsins hafi verið hætt og blaðið sem var prentað í nótt það síðasta í sögu fjölmiðilsins. Sumt hefur þó lítið breyst því tvær fréttir sem birtust í fyrstu útgáfu blaðsins eiga sér beina hliðstæðu í síðustu útgáfu þess.
Magnús Guðmundsson, gjarnan kallaður Maggi Peran, vekur athygli á því á Twitter að í fyrsta og síðasta blaðinu eru tvær fréttir sem eru svo að segja sömu fréttirnar.
Hann skrifar: „Fréttablaðið RIP. Fyrsta blaðið olli straumhvörfum. Þar var sagt frá pirringi í ríkisstjórn vegna starfa þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Líka í síðasta blaðinu 22 árum seinna. Í bæði fyrsta og síðasta blaðinu var fjallað um minnkandi kaupmátt fjölskyldna. Sumt breytist ekki.“
Í fyrstu útgáfu Fréttablaðsins var greint frá að pirringur væri að ágerast í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þá þótti Framsóknarmönnum Davíð Oddsson ganga of langt. Í síðustu útgáfu Fréttablaðsins var greint frá kröppum dansi Jóns Gunnarssonar, sem hefur líklega ekki farið fram hjá neinum.
Svo virðist lítið hafa breyst í efnahagsmálum á þessum tveimur áratugum sem Fréttablaðið var gefið út. Í fyrstu útgáfu blaðsins var haft eftir þáverandi varaforseta ASÍ, Halldóri Björnssyni, að launafólk sitji uppi með verðbólguna. Einnig var talað við Ara Edwald, þáverandi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem tók undir áhyggjur um lækkun krónunnar. Ari taldi þó ástæðulaust að setja það í samhengi við kjarasamninga.
Mjög svipaða frétt má finna í síðasta blaði Fréttablaðsins, nema þar er ekki rætt við neinn fulltrúa verkafólks. Í blaðinu sem kom út í morgun er vitnað í tilkynningu Félags atvinnurekenda, sem kvartar meðal annars undan því að „ekki finnist stafkrókur í fjármálaáætlunni um lækkun tolla til að stuðla að aukinni samkeppni, lægra matarverði og lækkandi verðbólgu“.