Eftir neyðarfund í ríkisstjórn Sviss í gærkvöldi er unnið að því að búa til leið svo að stærsti banki Sviss, UBS, yfirtaki þann næst stærsta, Credit Suisse. Ef um eðilega yfirtöku væri að ræða þyrfti að bera samrunan upp á hluthafafundum að undangengnum kynningum, ferli sem tæki sex vikur. Planið núna er að láta þetta gerast fyrir opnun markaða á mánudaginn.
Við samrunanb yrði til einn stærsti banki Evrópu. Fyrir eru bæði UBS og Credit Suisse skilgreindir sem kerfislega mikilvægir bankar á heimsvísu, eru þar meðal þrjátíu stærstu banka heims. Efnahagsreikningur UBS er um 167 þúsund milljarðar króna en hjá Credit Suisse er hann um 87 þúsund milljarðar. Saman eru þessi bankar um 55 sinnum stærri en íslenska bankakerfið.
En þótt efnahagsreikningur Credit Suisse sé á við hálfan hjá UBS, þá eru fyrri bankinn á hraðleið með að verða verðlaus. Við lokun markaða á föstudaginn var UBS sjö sinnum verðmeiri en Credit Suisse. Á sama tíma og gengi hlutabréfa í UBS hækkaði um 120% á síðustu þremur árum lækkuðu hlutabréfin í Credit Suisse um 70%. Í fyrra var hagnaður UBS 1.150 milljarðar króna en Credit Suisse tapaði 1.200 milljörðum króna.
Enn er óvíst hvernig að samrunanum verður staðið, ef af honum verður. Ein hugmynd er að taka fjárfestingabankastarfsemina og setja í bandarískt dótturfyrirtæki Credit Suisse, First Boston, og selja það sérstaklega. Þar er mesta áhættan, mestu hneykslin og ástæðan fyrir miklu tapi undanfarin misseri.
Það hefur ekki stærri banki riðað til falls síðan um Hrunið 2008. Svissnesk stjórnvöld ætla að ná því um helgina að láta Credit Suisse falla eins hljóðlega og hægt er og inn í stærsta banka Sviss, UBS. Þau vilja ekki missa bankastarfsemina úr landi, en bankar eru mikilvægur þáttur í svissnesku efnahagslífi.