Uppljóstrari í heilbrigðiskerfinu: „Ég hef séð lækni neita í þrígang að veita manni þjónustu“

„Ég hef orðið vitni að valdníðslu.“ Þetta segir starfsmaður innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi í nafnlausri frásögn sem birtist innan Facebook-hópsins Rétturinn til að lifa. Markmið hópsins er að greina frá sögum af mannréttindabrotum í íslenska heilbrigðiskerfinu. Ljóst er að slíkar sögur eru mýmargar en hópurinn hefur vaxið hratt. Tæplega tvö þúsund manns eru nú í hópnum, en hann var stofnaður fyrir helgi. 

Fyrrnefndur starfsmaður segir að innan heilbrigðiskerfisins starfi gífurlega ólíkt fólk, bæði gott og vont. „Ég hef unnið á ýmsum sviðum heilbrigðiskerfisins og innan kerfisins er ótrúlega margt aðdáunarvert fólk. Þar er líka þreytt fólk, svekkt fólk, fátækt fólk og veikt fólk. Þar er bugað fólk, indælt fólk og hlýtt fólk. Þar er fólk með allskonar raskanir, þar er fólk sem glímir við sína eigin drauga og þar er fólk sem grætur eftir vinnu. Þar er líka forréttindablint fólk, dómhart fólk og ósvífið fólk. Þar er líka ofbeldisfólk, fasískt fólk, fólk sem kann ekki að hlusta og fólk sem langar ekki til þess. Þar er líka fólk sem sér að skipið er að sökkva og reynir allt hvað það getur til þess að ausa úr fleytunni en skipið sekkur samt,“ segir starfsmaðurinn.

Viðkomandi segir að sumir innan kerfisins hafi tekið sér það hlutverk að draga úr aðsókn almennings. „Flest fólk sem ég hef séð neita sjúklingum um þjónustu, niðra sjúklinga eða gera lítið úr þeim virðist óafvitandi hafa gerst varðhundar deyjandi kerfis. Þetta fólk virðist hafa tekið að sér það hlutverk að stemma stigu við aðsókn almennings í heilbrigðisþjónustu þegar þörfin fer vaxandi og sveltistefnan ætlar allt að drepa.“

Uppljóstrarinn segist hafa orðið vitni að því að læknar brutu mannréttindi sjúklinga. „Ég hef séð lækni neita í þrígang á sömu vaktinni að veita manni tilhlýðilega þjónustu því maðurinn hafði stöðu flóttamanns, þegar maðurinn kom aftur á næstu vakt kom í ljós að maðurinn var í virku hjartaáfalli. Ég hef séð fíklum neitað um þjónustu vegna veikinda sinna, ég hef heyrt fagfólk í mörgum stéttum viðbragðaðila viðhafa mjög niðrandi orðræðu um feitar konur, innflytjendur, fíkla, útigangsfólk, miðaldra konur, móðursjúkar mæður, brúna íslendinga, hinsegin fólk og öryrkja. Ég hef orðið vitni að valdníðslu,“ segir starfsmaðurinn.

Að lokum segir hann svo: „Kerfið er afleiða samfélagsins. Samfélagið er brotið, samfélagshugsjónirnar eru að deyja og einstaklingshyggjan er allt að drepa. Heilbrigðiskerfið okkar er ekki bilað óvart. Það hefur verið svelt viljandi. Ástandið núna er einmitt það sem valdhafar vilja.“

Hér má finna fyrrnefndan hóp, Rétturinn til að lifa, og lesa fleiri sögur af hrörnandi heilbrigðiskerfi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí