Bjarni vill hægja á húsnæðisuppbyggingu.

Íslensk stjórnvöld hafa nýlega lofað stórkostlegri uppbyggingu á húsnæði til að reyna að halda í við fólksfjölgun. En til þess það þarf stórátak vegna hve framleiðsla á húsnæði sem hlutfall af fjölgun íbúa hefur dregist saman. Á þó enn eftir að vinna niður fimm til átta þúsund óuppfyllta íbúðaþörf sem varð til á árunum 2010-2017 að mati HMS og því á brattan að sækja. En nú vill fjármálaráðherra hægja á uppbyggingu á íbúðarhúsnæði, hann vill “kæla vélarnar” eins og hann orðaði það.

Komu þessi orð frá fjármálarráðherranum við kynningu á fjármálaáætlun aðeins nokkrum klukkustundum áður en Sigurður Ingi Jóhannsson settist í Kastljósið á RÚV og varði mærðarlega áform sín um yfirstandandi og stórkostlega húsnæðisuppbyggingu. Hefur Sigurður Ingi í því sambandi skrifað undir sáttmála um að byggðar verði fjögur þúsund íbúðir á ári fram til ársins 2027. Hefur hann hvergi hvikað frá þeim háleitu áformum þrátt fyrir að öll hin fyrri samskonar áform hafi gufað upp.

Innviðaráðherrann hefur verið iðinn við kolann og skrifað undir nokkur slík áform frá því að hann tók fyrstu skrefin í embætti. Þar fékk hann í vöggugjöf anda slíkrar iðju frá forverum sínum og flokksystkynum, en samanlagt hafa þau ríkt yfir íslenskum húsnæðismálum í heilan áratug. Sennilega kann hann þeim þó litlar þakkir fyrir slíka dulu sem honum var fengin, en það er þó ekki í fyrsta skipti sem hann situr uppi með svarta péturinn.

Hvort blekið á samningnum sem Sigurður Ingi skrifaði undir með borgarstjóranum í Reykjavík hafi náð að þorna áður en Bjarni Ben kvað upp dóminn á fimmtudaginn er óvíst. Hvort sem er þá er ljóst að Bjarni gefur lítið fyrir slíka óskalista. Borgarstjórinn á það líka sameiginlegt með innviðaráðherra að vera hvað þekktastur fyrir áþekka yfirlýsingagleði og upplýsingaóreiðu um húsnæðismál. Það hefur því örugglega verið í makindalegu bróðerni sem þeir tveir innsigluðu eftirminnilega samkomulag um að tvö þúsund íbúðir yrðu byggðar í höfuðborginni í ár og á hverju ári næstu fimm árin.

En það blæs ekki byrlega fyrir þeim, því að framleiðsla á húsnæði hefur þvert á móti dregist enn frekar saman á undanförnu. Ef miðað er við árið 2005 þá var framleiðsla á húsnæði sem hlutfall af fólksfjölgun fyrir árið 2022 þrjátíu og átta prósent lægri. Það er því ekki úr háum söðli að detta.

Ef fram fer sem horfir munu innan við tvö þúsund íbúðir verða fullkláraðar á landinu í ár og einungis átta hundruð í Reykjavík, sem er innan við helmingur af því sem þarf til að halda í við fólksfjölgun. Þeir sem vel þekkja til segja að óuppfyllt íbúðaþörf sé yfir tíu þúsund íbúðir á íslenskum húnsæðismarkaði og því stefni í hamfarir með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Eftir tíu ár með Framsóknarflokkinn ríkjandi yfir húsnæðismálum landsins, gæti Bjarna Ben hafa hreinlega leiðst þófið í ráðherrum flokksins og ákveðið að hægur dauðdagi húsnæðisöryggis á Íslandi væri alltof langdreginn, bara of lélegt sjónvarp sem þarf að taka úr sambandi. Blikur eru jú á lofti og það lítur út fyrir að ávöxtun fjárfesta á húsnæðismarkaði gæti farið undir hundrað prósent vegna verðbólgu og vaxtahækkana og það þykir Bjarna óásættanlegt. Hann hefur því kveðið upp dóminn, dóminn sem hinir eru of ragir til að kveða.

„það er auðvitað augljóslega talsvert flókið að eiga peninga á Íslandi“ sagði Sigurður Ingi í frægu viðtali og „auðvitað erfitt“ að búa við áratuga langt óöryggi með heimili sitt, „það vildi hann alls ekki sjálfur“. Hann hefur þó hingað til hafnað úrræðum sem koma í veg fyrir áföll sem slíkt öryggisleysi veldur. Sigurður sem hafði í eina tíð miklar áhyggjur af öryggi og heimilisfesti auðæfa fyrrum formanns síns ætti kannski að huga að fjölskyldum landsins líka og sýna þeim sömu hollustu. Það er ekki flókið að eiga peninga á Íslandi, það er flókið að eiga þá ekki.

Einhversstaðar verða fjölskyldur að vera, það gildir ekki bara um peninga!

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí