„Blóðherbergið“ á Kleppi vekur óhug – Sjúklingar geldir án deyfingar fyrir skuggalega stuttu síðan

„Það segir svo að á Kleppi hafi verið sérstök „blóðherbergi“ á ákveðnum stöðum, þar sem notuð voru hryllileg tæki eins og „geldingaklippur“ þegar gelda þarf í snarhasti. Oft voru menn sem þegar voru í spennitreyju „klipptir“ á þennan hátt á ákveðnum stað á Kleppsspítala, yfirleitt án nokkurrar deyfingar.“ 

Svo hefst nafnlaus frásögn sem birtist innan Facebook-hópsins Rétturinn til að lifa. Markmið hópsins er að greina frá sögum af mannréttindabrotum í íslenska heilbrigðiskerfinu. Ljóst er að slíkar sögur eru mýmargar en hópurinn hefur vaxið hratt. Síðustu daga hefur verið talsvert karpað um þessa frásögn af Kleppi. Sumir trúa því ekki að svo hræðilegar aðstæður hafi verið á Kleppi en raunveruleikinn er sá að grimmileg vönun Íslendinga var bæði algeng og ekki svo langt síðan henni var hætt. 

Fyrrnefnd frásögn gefur í skyn að mennirnir sem voru vanaðir í „blóðherberginu“ hafi jafnvel verið heilbrigðir. „ Oftast voru þetta menn úr sveitum landsins sem ranglega, eins og lengi hefur verið siður hér á landi, höfðu verið úrskurðaðir geðveikir– fyrir það eitt að vera úr sveit, en slíkur stéttauppruni hefur oft nægt hér til að sannað sé að menn séu fábjánar. Ýmsar pyntingaaðferðir hafa verið notaðar, eins og að skera á hásinar manna og neita mönnum um alla læknisþjónustu af nokkru tagi. Eftir geldingar er mönnum látið blæða inn í „blóðherbergi“ og öskrin slík að því er ekki hægt að lýsa,“ segir Íslendingur á besta aldri.

Líkt og fyrr segir þá virðast ekki allir trúa þessari frásögn en hún er studd rannsóknum. Í annar nafnlausri færslu í hópnum Rétturinn til að lifa er vitnað í grein  eftir Unni Birnu Karlsdóttur, doktor í sagnfræði. Rannsóknir hennar leiddu í ljós að á árunum 1971 til 1974 hafi verið framkvæmdar 160 geldingar, eða um það bil einn aðgerð á tíu daga fresti. Rökin voru yfirleitt að viðkomandi væri „fáviti eða varanlega geðveikur“, eða jafnvel „ofdrykkjufólk“.

Hér fyrir neðan má lesa fyrrnefnda sagnfræði samantekt sem var birt innan hópsins, Rétturinn til að lifa. 

Hér hefur verið karpað um hvort satt sé að geðsjúkir hafi verið vanaðir hér á landi. Nú er tækifæri til að rýna ögn í þetta og nota þau verkfæri sem til eru.

Í Sögu, tímariti Sögufélags Reykjavíkur, frá árinu 2005 (2. tölublaði) er að finna býsna góða grein eftir Unni Birnu Karlsdóttur, doktor í sagnfræði. Um rannsóknarritgerð er að ræða og er umfjöllunarefnið vananir eða ófrjósemisaðgerðir á Íslandi frá 1938-1975.

Yfirskrift ritgerðarinnar er „Vönun andlegra fáráðlinga …“ og er það vísun í orð Vilmundar Jónssonar landlæknis (gegndi embættinu frá 1931-1959) sem ritaði greinargerð með frumvarpinu til laga nr. 16/1938: Laga um afkynjanir, vananir og geldingar. Var lögunum einkum ætlað að vera verkfæri velferðarkerfisins sem grípa mætti til ef þurfa þótti.

Þetta „verkfæri“ var heldur betur notað. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 29. júní 1999 segir að „allt að 751 aðgerð hafi verið gerð á grundvelli laga nr. 16/1938 um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, sem koma í veg fyrir að það auki kyn sitt, hafi verið gerðar frá 1938-1975. Markmiði laganna er í þessari greinargerð lýst sem tvíþættu; annai-s vegar að koma í veg fyrir fæðingu gallaðs afkvæmis og hins vegar til að létta fávitum og sjúklingum lífsbaráttuna.“

Já gott fólk, við erum ekki að tala um hinar myrku miðaldir heldur eitthvað sem var stundað fyrir skuggalega stuttu síðan. Frá 1971 til 1974 voru framkvæmdar 160 slíkar aðgerðir. Það þýðir 40 áðgerðir á ári, eða ein aðgerð á um það bil tíu daga fresti. Það er slatti!

Hvernig var ákveðið hverja skyldi vana eða gera ófrjóa? Um það segir í Morgunblaðsumfjölluninni:

„Sérstök nefnd hafði það hlutverk að meta allar umsóknir af þessu tagi og samkvæmt lögunum mátti aðeins veita leyfi til vönunar að gild rök lægju til þess, að viðkomandi bæri í sér „að kynfylgju það, er mikil líkindi séu til, að komi fram á afkvæmi hans sem alvarlegur vanskapnaður, hættulegur sjúkdómur, andlegur eða líkamlegur, fávitaháttur eða hneigð til glæpa, eða að afkvæmi hans sé í tilsvarandi hættu af öðrum ástæðum, enda verði þá ekki úr bætt á annan hátt.

b. Að viðkomandi sé fáviti eða varanlega geðveikur eða haldinn öðrum alvarlegum langvarandi sjúkdómi og gild rök liggi til þess, að hann geti ekki með eigin vinnu alið önn fyrir sjálfum sér og afkvæmi sínu.“

Aftur að rannsóknarritgerðinni sem fyrst var nefnd. Þar segir m.a. eftirfarandi (bls. 20): „Fyrsta gerð frumvarpsins heimilaði aðgerðir á þroskaheftum, geðsjúkum og fólki sem átti á hættu að eignast börn með erfðagalla. Landlæknir taldi ófrjósemisaðgerðir á þroskaheftu og geðsjúku fólki ráðlegar til að hindra fæðingu barna sem hætt væri við að hefðu alvarlega erfðagalla eða sjúkdóma og til að forða því fólki frá barneignum sem ekki væri andlega fært um að ala önn fyrir börnum. Aðgerðir á slíku fólki væru öllum fyrir bestu, eða eins og landlæknir orðaði það: „Vönun andlegra fáráðlinga léttir þeim lífið, er þjóðinni til hagsbóta og dregur úr úrkynjun komandi kynslóða.“ Félagslegar ástæður dugðu einar sér til að heimila ófrjósemisaðgerð á þroskaheftum eða geðsjúkum án þess að fullvissa væri fyrir hættu á erfðagöllum afkomenda. Líku máli gegndi um „ofdrykkjufólk, með því að álitamál er um, að af ofdrykkju stafi erfðahætta í eiginlegum skilningi“, sagði landlæknir. Hvað snerti heimild frumvarpsins til aðgerða á andlega heilbrigðu fólki, ef gild rök væru fyrir því að hætta væri á alvarlegum erfðasjúkdómum hjá börnum þess, sagðist landlæknir fyrst og fremst hafa mannúðarsjónarmið í huga.“

Hér er aðeins stiklað á stóru en það er um að gera að benda á nokkrar heimildir í þeirri von að fólk hætti að þrátta og pexa um sannleiksgildi persónulegra frásagna þess fólks sem deilir þeim á þessari ágætu síðu

Hér má finna fyrrnefndan hóp, Rétturinn til að lifa, og lesa fleiri sögur af hrörnandi heilbrigðiskerfi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí