Guðbjörn segir flokkinn hata launafólk: „Ég hef bara ekki efni á að kjósa Sjálfstæðiflokkinn“

„Forysta Sjálfstæðiflokksins og reyndar einnig Miðflokksins er meinilla við allt launafólk, sérstaklega ef það starfar fyrir ríki eða sveitarfélög. Þessum flokkum er þó bara frekar illa við launafólk á almennum vinnumarkaði en hatar það ekki eins og pestina …“

Þetta segir Guðbjörn Guðbjörnsson, yfirtollvörð og óperusöngvara, í pistli sem hann birtir á Facebook. Guðbjörn gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn harðlega og segir flokkinn í tilvistarkreppu. Guðbjörn hefur yfir árin gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Árið 2010 sagði hann sig úr Sjálfstæðisflokknum en kvaðst hafa orðið fyrir einelti og ofsóknum innan flokksins. Þrátt fyrir þetta snera hann aftur nýverið, en virðist ætla að stoppa stutt.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Guðbjörns í heild sinni.

Tveir stjórnmálaflokkar eru í mikilli tilvistarkreppu eins og er: Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar. Í stjórnlausu ástandi vill fólk ekki stjórnleysingja eins og Pírata heldur öryggi. Í stjórnleysi og óöryggi ætti almenningur að vilja kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn en vill það helst ekki eins og sakir standa. Fólk sér núna að popúlismi „à la Trump eða Boris“ er ekki vænlegur kostur og Miðflokkurinn því ekki að „kassera“ inn fylgi á óvissutímum. Hvaða ástæður eru fyrir þessari þróun?

Þar sem ég kem nú víða við vegna starfa minna, sem eru svo ótrúlega ólík að það er næstum því ótrúverðugt, gefur það mér ákveðið forskot við að spá um framtíðina, þótt slíkar spár séu alltaf mjög erfiðar. En af þessum sökum tala ég við mikið af fólki og heyri ýmislegt. Núorðið heyri ég hreint út sagt aldrei neitt gott um Sjálfstæðisflokkinn, nema þegar ég slysast til að segja það sjálfur, eða einn svakalegur frjálshyggjumaður á 4. hæð tollhússins (sá eini sem er eftir á öllum 5 hæðunum). Öllum öðrum í mínu umhverfi er orðið meinilla við minn flokk (flestir orðnir eða að verða „fyrrverandi sjálfstæðismenn“) og hneykslast reglulega á að ég sem opinber starfsmaður og launamaður styðji enn þennan flokk atvinnurekanda og þeirra ríku.

Ég svara því til að ég sé frá blautu barnsbeini talsmaður blandaðs markaðshagkerfis með „hægri sveiflu“ – kristilegur íhaldsmaður. Þá verður fólk hissa og spyr mig hvað í ósköpunum það sé nú eiginlega; kristilegt íhald? Ég reyni að útskýra það en verð var við að fólk horfir á mig eins og ég sé Marsmaður. Það segir að ég styðji 1%ið, þá allra, allra ríkustu. „Fair enough“, eins og það heitir víst á ný-íslensku. Síðan bendir þetta ágæta fólk mér á orðræðuna um launamenn og opinbera starfsmenn innan míns eigin stjórnmálaflokks. Hana hef ég nú mánuðum saman skoðað. Það var því miður engin skemmtilesning.

Viti menn, þetta er bara hárrétt hjá fólki. Forysta Sjálfstæðiflokksins og reyndar einnig Miðflokksins er meinilla við allt launafólk, sérstaklega ef það starfar fyrir ríki eða sveitarfélög. Þessum flokkum er þó bara frekar illa við launafólk á almennum vinnumarkaði en hatar það ekki eins og pestina. Ég hef bara ekki fundið neitt vinsamlegt frá forystufólki Sjálfstæðisflokksins um launafólk í 2-3 ár og notaði ég þó vin minn „Gúgel“ mér til aðstoðar. X-D vill auðsjáanlega hækka lífeyrialdur upp í 70-75 ár, lækka lífeyrisgreiðslur, ráðast á veikindarétt, lækka kaupmátt, helst banna stéttarfélög, tryggja afkomu 1%sins og helst geta rekið alla opinbera starfsmenn á staðnum. Helstu kvenkyns vonarstjörnur flokksins eru þarna fremstar í flokki og halda jafnvel uppi því sem kallast mætti „hatursorðræða & upplýsingaóreiða“ í garð opinberra starfsmanna.

Víkur þá sögunni að ýmsum kaffistofum og ýmsum hægri trúnaðarmönnum, sem hringja í mig á kvöldin og helgar eða kíkja við á skrifstofunni eða sem ég hitti á förnum vegi eða senda mér reglulega ítarleg facebook-skilaboð. Þetta er mjög vel tengt sjálfstæðisfólk, sem eðlilega þorir ekki að koma fram undir nafni. Jafnvel þeir sem eru um 60 ára aldur og hafa verið í FLokknum í 45 ár ætla ekki að kjósa hann í næstu kosningum. Að fylgi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum sé enn um 20% kemur mér eiginlega á óvart, því skv. mínum könnunum ættu þetta í mesta lagi að vera um 10-15%. Allir sjálfstæðismenn segja við mig það sama: „Það veit enginn hvað ég geri í kjörklefanum“.

Allir „aðrir“ sem ég tala við – til hægri, vinstri eða miðjunni – bæta síðan við því sama: „Kristrún er bara að virka mjög vel á mig, hún er alveg eldklár. Ég treysti henni og held jafnvel að hún gæti haft stjórn á Helgu Völu og Jóhanni Páli, sem Logi gerði ekki. Ég held hún gæti jafnvel komið í veg fyrir að 10-15 þúsund flóttamenn komi landsins árlega og skáki þannig Jóni Gunnars. Kristrún er raunsæ, heiðarleg, réttsýn…“. Jæja, segi ég þá, þið haldið það (þarf smá tíma til að jafna mig). Þau halda þá bara áfram: „Jú sérðu, fyrir okkur venjulegt launafólk er Sjálfstæðiflokkurinn ekki að gera rassgat, eiginlega bara að skaða okkur. Ég kýs alltaf þá sem skila mér einhverju í vasann. Þeir hafa enga stjórn á verðbólgunni eða vaxtahækkunum. Ég hef bara ekki efni á að kjósa Sjálfstæðiflokkinn“.

Já, segi ég þá, þið segið nokkuð. Og gott er ef að lítill rauður sendiferðabíll er ekki að renna upp að Valhöll og pikka upp nokkra pólitíska flóttamenn akkúrat núna, sem eru bara ósköp meinlausir „hægri kratar“ eða „kristilegir íhaldsmenn“ en ekki „harðlínu-frjálshyggjumenn“ eða „milljarðamæringar“. Sumir segja að þeir ætli jafnvel að „láta ESB og evruna yfir sig ganga“. „Hægri kratana“ og aðra „hallærislega, kristna íhaldsmenn“ vill Sjálfstæðisflokkurinn nefnilega bara alls ekki lengur. Kristrún má eiga þá

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí