„Í hvert sinn sem ég frétti af andláti vegna ofneyslu vímuefna fæ ég sting í hjartað og hugsa til Sissu dóttur minnar“

Jóhannes Kr Kristjánsson, fréttamaður sem fjallaði eftirminnilega um Wintris-mál Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, segist í pistli sem hann birtir á Facebook að hann fái sting í hjartað í hvert skipti sem hann fréttir af andláti vegna ofneyslu vímuefna. Hann segist hugsa til Sissu dóttur sinnar, sem lést fyrir 13 árum. Hún var einungis 17 ára gömul. Jóhannes segir nauðsynlegt að stjórnvöld setji á fót hóp fólks sem vinnur náið með börnum í neyslu og heyri þeirra hugmyndir um lausnir.

Hér fyrir neðan má lesa pistilinn í heild sinni.

Í hvert sinn sem ég frétti af andláti vegna ofneyslu vímuefna fæ ég sting í hjartað og hugsa til Sissu dóttur minnar sem lést fyrir nærri 13 árum – þá aðeins 17 ára gömul. Það eru að verða komin 13 ár síðan stelpan mín dó og 12 ár síðan ég sagði sögu Sissu og kafaði ofan í heim ungra barna í neyslu fyrir Kastljós. Umræðan í samfélaginu þá var svipuð og nú – kallað var eftir aðgerðum til að bjarga mannslífum.

Frá því Sissa mín dó hef ég reglulega tjáð mig um málefni ungra vímuefnaneytenda og nauðsyn þess að bregðast við vanda sem bara eykst. Ég hef átt fundi með ráðherrum, þingmönnum og fólki sem vinnur í kerfinu sem á að halda utan um og styðja börnin sem verða utanveltu og feta veg neyslunnar. Mín greining eftir ótal samtöl við fólkið sem vinnur í kerfinu er að þeir sem vinna náið með börnunum eru með hugmyndir sem við ættum að hlusta á og styðja við. Það er bara alltof sjaldan hlustað á fólkið sem vinnur raunverulega með börnunum.

Neysluheimurinn hefur harðnað mikið síðan ég tjáði mig mest um þessi mál. Fleiri deyja og neyslan eykst og harðnar hraðar. Vandinn er orðinn miklu stærri og nú verður að bregðast við með markvissum hætti. 

Eftir að Sissa dó var mikið haft samband við mig og ég reyndi eftir megni að hjálpa foreldrum barna sem voru að byrja í neyslu við að fá aðstoð og úrræði í kerfinu til að taka á vandanum því þau voru ráðalaus og lentu á lokuðum dyrum. Ég skrifaði bréf til ráðamanna í kerfinu til að reyna að fá aðstoð fyrir börn foreldranna sem höfðu sjálf reynt að fá kerfið til að bregðast við í langan tíma en lítið sem ekkert gerðist. Þegar ég skrifaði undir bréfin fyrir hönd foreldranna brást kerfið við því það vissi að Jóhannes Kr. gat verið með uppsteyt og vesen. Hversu fáránlegt er það? Kerfið á að vinna fyrir alla og engan mannamun gera. 

Á hverjum degi hugsa ég um  Sissu og á sumum tímabilum meira en öðrum. Til dæmis núna þegar yngsta barnið mitt á að fermast hugsa ég um fermingargjöfina sem Sissa valdi – lestarferðalag með mér á milli Rómar og Parísar. Bara við tvö með bakpoka og ferðin átti að taka viku til tíu daga. Daginn áður en við áttum að fljúga sagði Sissa mér að hún gæti ekki farið í ferðina. Seinna sagði hún mér að hún hefði verið í neyslu á þessum tíma og tekið hana framyfir ferðalagið. Eftir andlátið fann ég minnisbók þar sem hún hafði svarað spurningunni: Hverju sérðu mest eftir í lífinu? Svarið: Að hafa ekki farið í ferðalagið með pabba. 

Ég hefði gefið svo mikið fyrir að eiga minningarnar og myndirnar úr ferðalaginu sem aldrei var farið og ég vil gera allt sem í mínu valdi stendur til að ekkert foreldri upplifi andlát barnsins síns vegna ofneyslu. Og ég vildi óska að ekkert foreldri upplifi það að missa barnið sitt því það er erfiðasta upplifun manneskju. Ekkert í lífinu er erfiðara. 

Saga Sissu hefur hjálpað mörgum og bjargað lífum. Það veit ég eftir að hafa fengið bréf frá ungu fólki og hitt ungt fólk sem hefur sagt mér að sagan hennar hafi komið þeim á rétta braut í lífinu. Þetta var ungt fólk sem var stutt á vegi neyslunnar komið.

Til að ná árangri í þessum málum þarf að hugsa lengra fram í tímann en fjögur ár – eitt kjörtímabil. Það þarf að hugsa nokkur kjörtímabil fram í tímann. Það tekur tíma og það kostar peninga að hjálpa fólki út úr neyslu og það þarf að finna leiðir sem raunverulega hjálpa og bjargar mannslífum. 

Í hvert skipti sem einhver deyr vegna ofneyslu koma sjúkrabílar á vettvang og bráðaliðar reyna endurlífgun. Á bakvið hvert andlát er raunveruleikinn kaldur eins og þið getið lesið í skýrslu sjúkraflutningamanna sem reyndu að endurlífga Sissu. Það tókst því miður ekki að endurlífga hana á þeim tíma – en núna – tæpum 13 árum síðar ættum við að vera betur stödd.

Stjórnvöld þurfa að setja á fót hóp fólks sem vinnur náið með börnum í neyslu og heyra þeirra hugmyndir um lausnir. Þessi hópur þarf að byrja strax og vinna hratt því líf ótalmargra er í húfi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí