Ólafur segir ekkert frelsi í að vera neyddur til þess að þurfa að ferðast á bíl

Ólafur Margeirsson hagfræðingur segir mikið frelsi felast í því að þurfa ekki að eiga bíl. Hann var nýverið á Íslandi, en hann er búsettur í Sviss, og segir sláaandi mun á samgöngum í löndnunum tveimur. Hér hafi hann neyðst til ferðast í bíl meðan í Sviss getur hann hæglega verið án hans, því almenningssamgöngur séu það góðar.

Þetta segir Ólafur í  grein sem hann birtir á Patreon-síðu sinni, en þar er hægt að gerast áskrifandi að pistlum hans. Pistilinn má lesa í heild sinni hér fyrir neðan. 

Ég og unnusta mín vorum á Íslandi í síðustu viku í fríi. Þar, líkt og við höfum gert áður, leigðum við bíl til þess að komast á milli staða. Við keyrðum norður en notuðum bílinn einnig innanbæjar á höfuðborgarsvæðinu. Samtal við frænda minn, sem sagðist vera þeirrar skoðunar að einkabíllinn færði honum frelsi til þess að ferðast eins og hann vildi, fékk bæði mig og unnustu mína til að benda á einkabílanotkun væri ekki eins frelsisgefandi og margir e.t.v. halda.

Nú er það tiltölulega algengt, sérstaklega vestan hafs, að vera þeirrar skoðunar að einkabíllinn færi eiganda hans aukið frelsi. En við horfum öðruvísi á málið: ég og unnusta mín veljum að eiga ekki bíl hér í Sviss. Við höfum á sama tíma allt það frelsi til þess að ferðast allra okkar ferða eins og við viljum og þurfum. Og við gerum það með almenningssamgöngum.

Bandaríkin og Ísland eiga það sameiginlegt að vera með afskaplega léleg samgöngumannvirki. Það er varla brúkanleg, ódýr lest til staðar í Bandaríkjunum og að sjálfsögðu engin á Íslandi (þótt það hafi verið plön um slíkt á 4. áratugnum muni ég rétt). Lítið er lagt í almenningssamgöngur á Íslandi og hið sama gildir í Bandaríkjunum. Þýskaland er dæmi um evrópskt land þar sem lítið er lagt í almenningssamgöngur. Og þar, líkt og á Íslandi og í Bandaríkjunum, er bílanotkun mikil. Stundum heyrir maður líka þessa „bílar færa manni frelsi!“ skoðun hjá Þjóðverjum.

Í Sviss, þessu sósíalíska bæli (djók!), er hins vegar mikið lagt í almenningssamgöngur. Ólíkt Íslandi valdi Sviss að fjárfesta í almenningssamgöngum m.a. með lestar- og strætókerfum sem fara inn í ótrúlegustu afdali landsins. Það er fjarri því að kerfið sé rekið með fargjöldum einum saman en sem dæmi má nefna að hið opinbera lagði SBB, sem er svissneska lestarkerfið, ríflega 5,1 milljarða franka í té árið 2022. Það er um 0,7% af landsframleiðslu Sviss.

Það væri svipað og ef ríkissjóður Íslands legði strætó á höfuðborgarsvæðinu um 25 milljarða króna í fé á ári. Raunin var hins vegar að strætó fékk 1,0 milljarð í fjárframlag frá ríkissjóði árið 2022. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu bættu svo 4,5 milljörðum við. Fjárframlög hins opinbera til almenningssamgöngukerfisins á Íslandi eru hlægilega lág!

Langmest af því fé sem SBB fær frá hinu opinbera hér í Sviss er notað til þess að halda áfram að byggja upp lestarkerfið í Sviss, t.d. með betri og öruggari lestum og lestargöngum, fleiri vögnum, tíðari ferðum o.s.frv. Nálgunin þegar kemur að sporvagna- og strætókerfunum er svipuð: fjárfesting hins opinbera fer í að byggja upp getu almennningsamgöngukerfisins til þess að flytja fólk með tíðari hætti og sem víðast. Á sama tíma, einmitt því notkunin á vegakerfinu minnkar þegar fólk hefur annan raunhæfan kost en bíl til þess að komast á milli staða, dregst mjög úr kostnaði við viðhald gatna og annarra innviða er viðkoma bílanotkun.

Þessi nálgun gerir það að verkum að við hér í Sviss sem þurfum að ferðast á milli staða höfum frelsi til þess að velja á milli þess að ferðast með bíl eða almenningssamgöngum. Ég og unnusta mín veljum að ferðast með almenningssamgöngum því þær eru góðar og hentugar. Við spörum með því ca. 150.000kr. á mánuði m.v. ef við þyrftum að eiga bíl til þess að komast á milli staða. Við höfum á sama tíma frelsi til þess að eiga og nota bíl, það er enginn sem bannar okkur það.

Íslendingar hafa ekki þetta val, þetta frelsi til þess að velja á milli almenningssamgangna og bíls. Vilji þeir komast á milli staða á góðan og hentugan hátt þurfa þeir að nota bíl. Ég og unnusta mín lítum ekki þannig á hlutina að telja það frelsi að vera neyddur til þess að þurfa að ferðast á bíl.

Vilji fólk á Íslandi auka frelsi sitt þegar kemur að samgöngum er því kjörið að spýta ærlega í þegar kemur að uppbyggingu almenningssamgangna innan borga og bæja sem og milli borga og bæja á Íslandi. Líkt og gert er hér í Sviss.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí