Samfylkingin í Kópavogi fordæmir í færslu á Facebook vinnubrögð meirihlutans í bænum í menningarmálum. Það skýtur nokkuð skökku við í ljósi þess að margir, svo sem Egill Helgason, líta svo á að Kópavogur sé að fylgja fordæmi Reykjavíkur, þar sem Samfylkingin er í meirihluta. Meirihlutinn í Kópavógi greindi frá því í vikunni að stefnt sé að því að Héraðsskjalasafn Kópavogs verði lagt niður og fleiri breytingar verða á starfsemi menningarhúsa bæjarins eru boðaðar. Meirihlutinn í Reykjavík ákvað á dögunum að leggja niður Héraðsskjalasafn Reykjavíkur.
Hér fyrir neðan má lesa færslu Samfylkingarinnar í Kópavogi
Samfylkingin í Kópavogi fordæmir vinnubrögð meirihluta bæjarstjórnar í málefnum menningarhúsa Kópavogs. Fullkominn skortur á faglegum og lýðræðislegum vinnubrögðum í stjórnsýslu og vanþekking á viðurkenndum vinnubrögðum um stefnumótun einkenndu tillögur sem lagðar voru fyrir bæjarstjórn til samþykktar 25. apríl s.l. án nauðsynlegra upplýsinga til ákvarðanatöku.
Meirihluti sjálfstæðis- og framsóknarmanna í bæjarstjórn Kópavogs gerði samning við KPMG um ráðgjöf í tengslum við menningarmál og skýrslugerð þar um í byrjun október 2022 án vitneskju annarra hagaðila. Lista- og menningarráð fékk fyrst vitneskju um úttekt á starfsemi húsanna í desember s.l. Ráðið fer skv. bæjarmálasamþykkt og erindisbréfi með stjórn húsanna og er stefnumótandi í menningarmálum bæjarins og ber að veita ráðgjöf í málaflokknum. Úttektin á starfsemi húsanna var unnin án umboðs frá bæjarráði en skýrslan kostaði 2 milljónir kr.
Þegar skýrslan og svo hugmyndir bæjarstjóra sem byggðar voru á henni voru loks til umræðu í lista- og menningarráði var ráðið múlbundið og því tjáð að um trúnaðargögn væri að ræða. Með herkjum tókst þó að knýja fram aukafund til að fá fram viðhorf forstöðumanna menningarhúsanna og var hverjum þeirra skammtaðar 15 mínútur á fundinum og alls ekki mátti ræða tillögur bæjarstjóra sem voru bundnar trúnaði. Forstöðumennirnir gátu því aðeins tjáð sig um skýrslu KPMG en í kjölfarið lögðu þeir allir fram afar vönduð minnisblöð sem sýna hve mikil hrákasmíð skýrslan er enda full af rangfærslum og misskilningi. Minnisblöð forstöðumannanna hafa nú loks verið gerð opinber ásamt öðrum gögnum og fylgja fundargerð ráðsins frá 11. apríl s.l. (https://www.kopavogur.is/…/lista-og-menningarrad/3566). Þau eru afar merkileg heimild um þau vinnubrögð sem bæjarstjóra Kópavogs finnast ásættanleg. Bókanir minnihlutans vegna málsins eru nú einnig aðgengilegar í fundargerðum.
Það er þyngra en tárum taki að nú sé verið að slátra tveimur á fimm menningarhúsum Kópavogs og vega að tveimur öðrum til viðbótar. Mest hefur verið fjallað um örlög Héraðsskjalasafns Kópavogs sem nú á að leggja niður. Héraðsskjalasafnið hefur verið í óviðunnandi húsnæði og verið fjársvelt árum saman en niðurlagning þess lagar ekki þann vanda. Náttúrufræðistofa Kópavogs er einnig lögð niður í núverandi mynd en Gerðarsafni ætlað að sjá um sýningarhald náttúruminja og rannsóknir á þeim áfram. Safnaráð bendir á að við þessa breytingu geti Náttúrufræðistofan ekki talist viðurkennt safn lengur og muni missa styrki og faglegan stuðning sem hún hefur notið til þessa en viðurkenndum söfnum ber að stunda rannsóknarstarf. Safnkostur Náttúrustofu er ekki þess háttar að hann dugi til rannsókna áfram þótt bæjarstjóri telji að hægt sé að hafa heilan starfsmann í að rannsaka uppstoppaða fugla og gamalt skeljasafn.
Salurinn, einstakt tónlistarhús, var á dauðalistanum samkvæmt upphaflegum tillögum bæjarstjóra sem fannst tilvalið að útvista starfseminni og breyta þessari menningarperlu í skemmtistað. Á ögurstundu var tillögum um Salinn breytt og nú á að stofna starfshóp til að skoða fýsileika útvistunnar. Við getum því enn haldið í vonina með hann.
Fulltrúar Samfylkingarinnar í Kópavogi fordæma einræðistilburði bæjarstjóra Kópavogs og hafa bókað andstöðu sína á óvönduðum vinnubrögðum hans við hvert tækifæri.