Almenningur reisir við Samstöðina

Fjölmiðlar 8. maí 2023

„Við sendum út neyðarkall og almenningur svaraði strax. Við sjáum ekki enn út úr þessum en erum fullviss um að við getum byrjað útsendingar aftur. Og þá öflugri en áður,“ segir Gunnar Smári Egilsson ritstjóri Samstöðvarinnar, en tækjum úr stúdíói stöðvarinnar var stolið aðfaranótt laugardagsins.

Gunnar Smári segir erfitt að meta tapið í krónum og aurum. Kannski fæst eitthvað bætt hjá tryggingarfélagi. „Við höfðum nurlað fyrir þessu síðustu ár svo það má segja að marga ára vinna hafi horfið,“ segir hann.

Strax á laugardeginum fór fólk að leggja inn á Alþýðufélagið, sem er félag hlustenda og áhorfenda sem eiga Samstöðina. Í gærkvöldi höfðu safnast rúmar 700 þúsund krónur auk þess sem margt fólk hafði skráð sig fyrir nýrri áskrift. „Við erum ekki með í hendi nóg til að byggja upp nýtt stúdíó, en nóg til að vera sannfærð um að það takist,“ segir Gunnar Smári.

Hópurinn að baki Samstöðinni vinnur nú að því að endurreisa stúdíóið og gera það enn betra en áður. Og yfirfara dagskránna svo hún verði enn öflugri. Þá er stefnt á að senda efnið út á útvarpsbylgju einnig til viðbótar við dreifingu á youtube, Facebook og á heimasíðunni samstodin.is . Og í framhaldinu að streyma dagskrá Samstöðvarinnar svo fólk geti horft á hana í sjónvarpstækjum.

„Fyrst vorum við náttúrlega svolítið slegin út af laginu,“ segir Gunnar Smári. „En þegar við urðum vör við viðbrögð almennings fylltumst við eldmóð og erum nú sannfærð um að við náum að byggja Samstöðina upp enn frekar. Við fáum ekki aðeins fjárstyrk frá fólki heldur sönnun þess að það sem við höfum verið að gera skiptir fólk máli.“

Óvíst er hvenær útsendingar byrja aftur. Það tekur tíma að safna saman tækjum, raða þeim saman og prufa. „Mögulega byrjum við fljótlega með takmarkaðar útsendingar, svolítið einfaldara sjónvarp. En bætum síðan fljótt við,“ segir Gunnar Smári. Hann segir að verið sé að skoða stuttan fréttatíma og ýmislegt sem enn er of snemmt að skýra nánar.

„Svo má bæta við fleiri þáttum. Ef fólk hefur áhuga á að þróa umfjöllun eða umræðu þá endilega sendið hugmyndir á samstodin@samstodin.is. Samstöðin hefur alltaf verið opin fyrir allskyns þáttum,“ segir Gunnar Smári.

Þau sem vilja gerast áskrifendur og þar með eigendur Samstöðvarinnar geta gengið í Alþýðufélagið með því að skrá sig hér: Félagaskráning Samstöðvarinnar.

Þau sem vilja hjálpa til við kaup á nýjum tækjum geti lagt inn á reikning Alþýðufélagsins: Bankanúmer: 1161-26-001669 Kennitala: 550891-1669

Myndin er af stúdíóinu sem hvarf.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí