Listamaðurinn Jóhann Ludwig Torfason vekur á Facebook athygli á húsi sem á að rísa Laugaveg 73. Flestir virðast sammála um að húsið sé afspyrnu ljótt. Mynd af þessu húsi má sjá hér fyrir ofan og getur hver og einn dæmt fyrir sig.
Jóhann skrifar: „Mikið erum við nú gæfusöm þjóð, þegar opnast lóð við sjálfan Laugaveginn, fjölförnustu götu landsins, þá er vitaskuld fenginn einhver frækinn arkítekt – PKdm- sem notar vel þetta dauðafæri að teikna sannkallaða ævintýrahöll. Þau hundruðir þúsunda sem ganga þarna framhjá á ári hverju munu vafalaust gapa af undrun og hrifningu og fylla símann af myndum af þessum stórfenglega arkítektúr. Gaudi hvað? Nú er lag að méla niður fleiri bárujárnskofa svo fleiri snillingar geti sýnt okkur náðargáfuna.“
Líkt og Jóhann kemur inn á þá er húsið eftir sömu arkitekta og teiknuðu Hafnartorgið. Egill Helgason fjölmiðlamaður grípur þann þráð og skrifar í athugasemd: „Sama stofa og ber ábyrgð á Hafnartorginu – það ætti nánast að láta hana borga skaðabætur.“
Enn fleiri skrifa athugasemdir við færslu Jóhanns, líkt og einn sem skrifar: „Legó kubbakynsóliðirnar svoldið fastar í kassanum og beinu línunum…. Merkilegur andskoti hvernig öllu tekst að versna þarna úti. Þetta er með þeim ljótari.“ Ein kona bendir á að húsið verði varla grámyglulegra. Hún skrifar: „og litskrúðið, maður minn!“
Svo er einn maður sem sér eitt jákvætt við húsið: „Draumahús reykingamannsins, allir úti á svölum í sígó.“