Þjóðfélagshópar eru skildir eftir í efnahagslegum ófærum

Verkalýðsmál 2. maí 2023

Formaður Sameykis, Þórarinn Eyfjörð, gekk í kröfugöngu Akureyri í gær sem stéttarfélögin við Eyjafjörð stóðu fyrir í tilefni af 1. maí í dag. Þórarinn hélt síðan hátíðarræðu í Hófi þar sem fjölmenni kom saman til að fagna deginum. Kristín Konráðsdóttir, félagi í Sameyki, flutti einnig ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð. Í þéttsetnum salnum í Hofi söng fólk hraustlega með þegar Maístjarnan var sungin. Þá var boðið upp á glæsilegt kaffihlaðaborð í menningarhúsinu að lokinni dagskrá.


Þórarinn Eyfjörð með rauða fánann. Rauði liturinn á fána verkalýðshreyfingarinnar táknar uppreisn gegn ranglæti. Hann þýðir að nú sé nóg komið, auk þess sem hann táknar dagrenninguna.

Sagði Þórarinn að saga stéttabaráttu og saga verkalýðshreyfingarinnar hafi kennt okkur að afl launafólks fyrr og nú hefur verið kveikjan og orkan sem knúið hefur fram breytingar á þjóðskipulaginu, öllum almenningi til heilla. Þá sagði hann að grundvöllur velferðarríkis náist með því að tryggja efnahagslegt réttlæti fyrir alla.

„Í baráttu launafólks hefur megininntakið alltaf verið hið sama; með samstöðu og réttlæti að leiðarljósi, náum við að tryggja réttlæti fyrir allt samfélagið, en ekki bara fyrir suma. Með því að standa saman gegn kröfu auðvaldsins um einka eignarétt á okkar sameiginlegu auðlindum, þá tryggjum við jöfnuð fyrir allt samfélagið, en ekki bara fyrir suma. Þegar talað er um að tryggja efnahagslegt réttlæti allra, þá má ekki gleyma þeim 35% heimila hjá fólki í sambúð með börn og þeim 62% einstæðra foreldra hér á Íslandi, sem eiga í erfiðleikum með að ná endum saman milli mánaðarmóta. Með því að tryggja efnahagslegt réttlæti fyrir alla – líka fyrir þessar fjölskyldur – þá náum við að skapa velferð fyrir alla, en ekki bara fyrir suma.“


Þórarinn flytur ræðu í Menningarhúsinu Hofi.

Þórarinn snéri máli sínu að stjórnmálunum, hvernig ríkisstjórnin skilur almenning útundan, og sagði að baráttan fyrir réttlæti, jöfnuði og velferð ljúki aldrei.

„Það þarf að standa vaktina, bæði fyrir almenning í dag og ekki síður fyrir fyrir komandi kynslóðir. Við sem núna sjáum í beinni útsendingu hvernig efnahagslegt ójafnrétti er að aukast, sjáum hvernig ákveðnir þjóðfélagshópar eru skildir eftir í efnahagslegum ófærum, hvernig viti fyrrt stjórnmálafólk leiðir hörmungar yfir heilu þjóðirnar, við vitum að þetta hefur gerst áður. Við þekkjum söguna og vitum að þegar geðveiki græðginnar er gefin laus taumur, þá endar það að lokum með skelfingu fyrir allan almenning.“

Frétt af vef Sameykis. Lesa má ræðu Þórarins Eyfjörð formanns Sameykis hér.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí